21.12.1939
Neðri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

149. mál, héraðsskólar

Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Frv. það, sem hér liggur fyrir, um héraðsskóla, felur í sér verulegar breyt. til hagsbóta fyrir skólana, ef það yrði að l. Ég vil því þakka flm., hv. þm. S.-Þ., fyrir að hafa gert till. til breyt. á núverandi héraðsskólalögum í þá átt, sem frv. þetta gengur. Það var raunar eðlilegt, að þessi hv. þm. flytti frv. til breyt. á núverandi l. um héraðsskóla, að fenginni 10 ára reynslu þeirra, því að hann var ásamt hv. þm. V.-Ísf. aðalhvatamaður að setningu l. um héraðsskólana.

Ég vil nú leyfa mér að víkja nokkrum orðum að frv. og einstökum atriðum þess, en til þess að stytta mál mitt svo sem verða má, mun ég

sérstaklega halda mér við þau atriði, sem skipta verulegu máli og fela í sér aðalbreyt. frá núverandi löggjöf.

1. gr. er algerlega í sama anda og má heita samhljóða l., þ. e. a. s. l. um breyt. á héraðsskólalögunum, sem gerðar voru fyrir 2 árum, sem sé um að ákveða þá staði, þar sem héraðsskólarnir skuli vera.

Í 2., 3. og 4. gr. felst aðaltilgangur þessa frv. Þær eru um kennslugreinar, aldurstakmark og skólatíma. Í þessum gr. er ekki sérstakt nýtt annað en þetta tvennt: Í fyrsta lagi, að aldurstakmarkið er sett nokkru hærra en venja hefir verið í skólunum á undanförnum árum. Það er að vísu ekki tekið fram í l., hversu gamlir nemendur skuli vera, en það hefir orðið að samkomalagi undanfarna vetur að taka ekki yngri nemendur en 16 ára, nema þá með sérstökum undantekningum. En það mun vera reynsla flestra kennara, að betra sé, að nemendurnir séu heldur eidri. Fæst af því fólki, sem héraðsskólana sækir, nýtur annarar skólamenntunar en 2 ára skólavistar þar. Þess vegna er það áreiðanlega betra, að nemendurnir séu komnir til nokkurs þroska, en undir venjulegum kringumstæðum verður að telja, að þeir hafi fengið hann l6–17 ára gamlir. Og ég tel það betra, því eldri sem þeir eru, fram að tvítugsaldri, en til skaða fyrir skólana og nemendurna, að þeir séu yngri en 16 ára. Vitanlega eru einstaka undantekningar, þegar um sérstaka námsmenn er að ræða. Hitt atriðið, sem skiptir máli í sambandi við kennslufyrirkomulagið, er það, að með frv. þessu er stefnt að meiri verklegri kennslu. Reynslan mun vera sú, að vinnustöðvar héraðsskólanna, bæði stúlkna og pilta, eru vel sóttar. Ég get sagt mína reynslu á þessu frá Laugarvatni, en hún er sú, að auk fastra tíma, sem nemendunum eru ætlaðir vikulega, þá fá þeir að koma til vinnunáms hvenær sem þeir hafa tíma til, og þessar stofur, sem verklega kennslan fer fram í, eru einlægt fullar af nemendum. Þessi breyt. myndi því áreiðanlega vera í samræmi við óskir nemendanna. Og ég tel, að auk þess sem áhugi fyrir verklegu námi er fyrir hendi hjá nemendunum, þá sé þetta mjög gagnlegt og því stefnt mjög í rétta átt með ákvæðum 3. gr. frv. En vitanlega hefir þetta nokkra aukna verklega kennslu í för með sér. Einnig er það vitað, að flestir skólanna muni hafa helzt til lítil húsakynni og tæki til að geta mætt þeim kröfum nú þegar, sem 3. gr. gerir. enda er sleginn varnagli við því og gert ráð fyrir. að það komi jafnskjótt og því verður við komið. eins og segir í gr. Hvað viðvíkur auknum kostnaði af þessari fyrirkomulagsbreytingu, þá eru ákvæði um það á öðrum stað í frv.

Í 5. gr. er nokkur breyt. frá l. Það er ákveðið, að auk þeirra aðila, sem hér eru taldir, sem eru félög stofnenda, ábyrgðarmanna og sýslunefndir, þá hafi einnig nemendasamböndin rétt til að taka þátt í kosningu skólanefnda. En vegna þess hve nemendurnir eru dreifðir víða um land, þá tel ég rétt að hverfa frá þessu og taka upp það fyrirkomulag, sem lagt er til í 5. gr. frv.

6. gr. er að mestu leyti óbreytt frá því, sem l. eru nú. Þó er tekin upp í þessa gr. nokkur aukin trygging fyrir kennarana. Ég skal geta þess, að kennarar við héraðsskólana hafa oft haft orð á því, að þeir væru ekki eins fastir í stöðum eins og gerist um aðra starfsmenn hins opinbera, þar sem væri hægt að segja skólastjóranum upp starfi með 1 árs fyrirvara, og kennurum með 6 mánaða fyrirvara, en annars eru skólanefndirnar alveg sjálfráðar um það, hvernig þær haga þessu, en í 6. gr. þessa frv. hefir verið tekið upp, að auk skólanefnda skuli koma til samþykki kennslumálastjórnarinnar, bæði um ráðningu og uppsögn kennara og skólastjóra. Þetta ákvæði var fyrir í l. að því er snertir skólastjóra, en því er nú bætt við, eftir till. menntamn., að þetta skuli einnig ná til kennaranna. Ég er þakklátur meðnm. mínum fyrir velviljaða þátttöku í því að flýta fyrir málinu.

7. gr. felur í sér allverulegt nýmæli, sem sé það, að kennarar séu fastir starfsmenn skólanna árlangt. Í l. er ekkert um þetta, en venjan hefir verið sú, að litið hefir verið þannig á, að þeir væru ekki fastir starfsmenn skólanna, nema þann tíma, sem kennsla stæði yfir. Nú er það bæði, að þessir skólar hafa margháttuð störf önnur að leysa af hendi en sjálfa kennsluna og þurfa í því sambandi á margháttuðum vinnukrafti að halda, og svo er það einnig, að ég álit, að það sé nauðsynlegt, að það séu fyrst og fremst kennararnir, sem beri hag þessara stofnana fyrir brjósti. Og ég vil spyrja um það, hvort ekki sé skynsamlegt og réttmætt að gera þá kröfu til þeirra manna, sem ætla sér að hafa lífsframfæri af starfi sínu við þessar stofnanir, að þeir hlynni að þeim á allan hátt, eftir megni. Það er enginu skráður eigandi þessara skólastofnana. Þær eru kallaðar sjálfseignarstofnanir. Og hvað verður svo um þær, ef kennararnir vilja ekki ljá þeim allt sitt lið og alla sína starfskrafta. Fyrir 11 árum hóf ég skólastjórn við skólann á Laugarvatni. Ég var ráðinn þangað aðeins meðan skólinn starfaði að kennslu, en mér varð það brátt ljóst, að skólinn þurfti á þeim kröftum að halda, sem ég gat látið honum í té. Ég hefi því þessi ár unnið við skólann bæði vetur og sumar, eftir getu, en þó ekki krafið yfirmenn mína um neitt kaup þar fyrir. Mér fannst það vera skylda mín að vinna fyrir stofnunina eins og ég hafði vit og getu til, og þess vegna vona ég, að mönnum finnist það ekkert óeðlilegt, að það sé skoðun mín, að aðrir starfsmenn ættu að gera slíkt hið sama, þar sem það er sannfæring mín, að þá sé stofnuninni bezt borgið og ekki séu líklegri aðrir starfsmenn en kennararnir til að gera meira gagn. Hitt er svo annað mál, hvort menn skuli skilyrðislaust skuldbundnir til þess. Einmitt með tilliti til þess hefir verið sett bráðabirgðaákvæði við frv. og því nokkuð breytt af meðnm. mínum og mér, en þennan varnagla, sem sleginn er við þessu ákvæði 7. gr., er að finna í 7. brtt. n., b-lið, sem hljóðar svo: „Ákveða má í reglugerð, að skólanefnd skuli heimilt að undanþiggja kennara, að nokkru eða öllu leyti, störfum fyrir skólann utan reglulegs kennslutíma.“ Ef þessi brtt. verður samþ., þá er þetta algerlega eftir samkomulagi kennara og hlutaðeigandi skólanefndar, smátt og smátt verði svo kennurunum gert að skyldu að vinna eingöngu í þágu skólanna, sé þess þörf, og ég er sannfærður um, að um þetta atriði tekst góð samvinna og verður skólunum og starfsmönnum þeirra til góðs. Ég vil benda á það og ekki á neinn hátt draga það í hlé, að ýmsir kennarar, og sérstaklega mínir kæru samstarfsmenn, hafa ekki litið þannig á þetta ennþá. Þeir hafa sent Alþ. símskeyti og þm. bréf, svo að hv. þm. eru skoðanir þeirra kunnar á þessu máli. Ég hygg, að það sé sérstaklega þetta atriði í 7. gr., sem þeim fellur ekki, en ég get ekki skilið, að góðir starfsmann sjái ekki, að athuguðu máli, að þetta er rétt stefnt. Ég skal hinsvegar játa, að mér kom það dálítið á óvart, að einmitt þessir kennarar skyldu senda erindi sín beint til Alþ. án þess að leita fyrir sér, hvort ég gæti ekki lagað þetta eitthvað, en ég hygg, að þetta starfi fremur af því, að þeir hafi haldið, að þetta væri venjan, en að þeir hafi ætlað að senda mér nein ónotaskeyti. Það getur ekki samrýmzt okkar góðu samvinnu og sambúð um margra ára skeið. Ég skal einnig geta þess, að í gær barst mér í hendur símskeyti frá kennurum Reykholtsskóla, þar sem farið er lofsamlegum orðum um frv. og það látið í ljós, að í því séu ákvæði, sem hafi stórkostlega þýðingu. En þeir telji, að eitt og annað sé að athuga við frv., og vilja gjarnan að málinu verði skotið á frest. En ég vil aftur á móti geta þess, að ef málið, sem nú er komið í gegnum 4. umr., ætti nú að dragast á langinn óg bíða þangað til í sumar, svo hægt væri að ná saman kennurunum til að ræða málið, þar sem þingið í vetur verður ef til vill síðasta þing á kjörtímabilinu, þá teldi ég frestinn hreint óvit. Ég vil þess vegna vænta þess, að hv. dm. haldi áfram sínum góða stuðningi við málið, í trausti þess, að þeir, sem eiga að framkvæma l., við nánari athugun fallist á, að hér sé skynsamlega í haginn búið. Og ég þykist bæði mikið um þessi mál hafa hugsað og hafa mikla reynslu í þeim, og þess vegna engin hætta á því, að ég beiti mér fyrir atriðum, sem ekki er nokkuð öruggt, að verði skólunum og kennurunum til góðs. Og fyrst og fremst get ég þó sagt þetta um hv. flm. og hv. þm. V.-Ísf., sem eru frá fyrstu tíð forystumenn héraðsskólanna og velferðamála þeirra, en þeir eru báðir stuðningsmenn þessa frv.

Um 8. gr. er fátt eitt að segja. Þar er að mestu tekin upp sama reglan og er í l. Í l. stendur, að fyrir 15–20 nemendur skuli greiða 6000 krónur, en í 8. gr. frv. stendur, að fyrir 15 fyrstu reglulega nemendur skólans skuli greiða 6000 kr. og síðan 250 kr. vegna hvers nemanda, þar til komnir eru 40, en 200 kr. úr því. Þarna eru þá fimm nemendur, sem hverjum eru ætlaðar 250 kr., eða 1250 kr. umfram það, sem er í gildandi l., því að samkv. gildandi l. fá héraðsskólarnir 11000 kr. fyrir fyrstu 40 nemendurna, en samkv. þessu frv. 12250 kr. Að öðru leyti eru styrkreglurnar alveg eins í þessu frv. sem í gildandi l.

Ég sé ekki sérstaka ástæðu til þess að fjölyrða um einstakar gr. þessa frv. frekar, nema 13. gr. Að vísu er í 9. gr. vikið nokkru nánar að því, hvert stefnt skuli að því er snertir verklegt nám, starfrækslu kennslubúa, námskeið og þ. h. Ýmsum hv. þm. þykir e. t. v. nokkuð hátt sett markið, en það stendur þó í byrjun síðari málsgr. 9. gr. frv. „Þar, sem því verður við komið, skal starfrækja kennslubú í sambandi við héraðsskóla.“ Þessu er þannig varið, að vitaskuld eru ekki gerðar sterkari kröfur til skólanna en möguleikar þeirra skapa, en ég tel það rétt og æskilegt að stefna að því, að þessir skólar geti stutt nemendur verki. að því að geta bjargað sér sem allra mest sjálfir, að því leyti, sem snertir smíðar bæði á húsum og húsgögnum og öðru því, sem þarf til þess að reisa heimili í sveit.

gr. þessa frv., sem lengst gengur í umbótum fyrir héraðsskólana, og þar af leiðandi gengur lengst í því að íþyngja ríkissjóði, er 13. gr., og mig undrar það alls ekki, þótt ýmsir hv. þm. staldri þarna við til athugunar á því, hvort þetta sé réttmætt, og enda þótt það sé réttmætt, hvort það sé kleift fyrir ríkissjóð að mæta því, sem þar er farið fram á. Það væri næsta óeðlilegt, ef það væri ekki athugað, hvort þetta sé ósanngjarnt gagnvart ríkissjóði og öðrum skólum, einkum ef athugað er, hvernig ástatt er, sem sé þannig, að þótt ákveðið sé í l. um héraðsskóla, að ríkissjóður leggi til helming stofnkostnaðar, en helmingur þess kostnaðar komi annarstaðar frá, þá hefir reynslan orðið sú yfirleitt um framlög þau til stofnkostnaðar héraðsskóla, er koma eiga í móti tillagi ríkissjóðs, að forustumenn skólanna og héruðin hafa ekki haft önnur ráð en að taka lán til móts við ríkissjóðsstyrkinn, enda var þetta talið heimilt. Af þessu leiddi, að héraðsskólarnir komust í skuldir, sem þeim er mjög erfitt að rísa undir, og hafa þeir orðið að hafa í frammi ýms ráð, svo sem að reyna að afla fjár með námskeiðum og gistihúsrekstri. Hvernig þetta hefir tekizt, fer vilanlega eftir því, hvernig skólarnir liggja í héraðinu, og einnig eftir því, hvaða önnur skilyrði þeir hafa til þess að geta gefið slíkar aukatekjur. Sumum skólum hefir gengið þetta allvel, þeir hafa haft allverulegan létti af gistihúsrekstri, og svo mikinn, að ég tel sjálfsagt, að haldið verði áfram á þeirri braut fyrst um sinn, þar sem það hefir sýnt sig, að mikil þörf er fyrir slíka staði til að taka á móti gestum. Ég sé ekki, að það sé annað en gott fyrir ferðafólk, að skólarnir starfræki gistihús á sumrin. En seinna, þegar tímar líða, fjárhagur skólanna batnar og gistihúsum fjölgar í landinu, þá er mjög sennilegt og skynsamlegt, að skólarnir breytist aftur í sumarskóla og námskeiðstímabil og þess háttar starfsemi. Ennfremur hefir hér verið færð fram sú ástæða fyrir auknum framlögum ríkissjóðs til héraðsskólanna, að þá skóla sæki nemendur úr öllum landshlutum. T. d. er því þannig farið um Laugarvatnsskólann, að Árnessýsla hefir lagt fram 60–70 þús. kr. til skólabyggingarinnar, en ekki nema hér um bil ¼ hluti af nemendum skólans er úr Árnessýslu, og þá vil ég spyrja: Hvernig stendur á því, að þess er krafizt, að Árnessýsla leggi fram helming stofnkostnaðar, þar sem aðeins ¼ hluti nemenda skólans er úr þeirri sýslu? Það er alls ekki ósanngjarnt að hugsa sér þetta svona samkvæmt 13. gr. þessa frv. Skólinn er fyrir ríkið í heild sinni, ekki sérstaklega fyrir Suðurlandsundirlendið, heldur fyrir allt landið. Flesta vetur hafa verið þar fleiri eða færri nemendur úr öllum sýslum landsins. Ég verð því að telja það, að þó að sú breyt., sem hér er farið fram á að gera á 13. gr. frv., sé borin fram af víðsýni og velvilja hv. þm., sé hún samt byggð á sanngirni, enda býst ég við, að hér komi til fullkomlega sanngjarnt sjónarmið hjá hv. þm., en ég get vel skilið hitt, að þeir athugi, hvort ríkissjóði verði þetta kleift. Ég geri ráð fyrir, að umr. verði hér á Alþ. um þetta framlag, og jafnvel sérstaklega um 13. gr. þessa frv., og mun ég þá e. t. v. geta gefið upplýsingar eftir því, sem kynni að koma fram, en mun ekki að þessu sinni fara fleiri orðum um þessa gr.

Ég vil aðeins með örfáum orðum víkja að brtt. frá menntmn. á þskj. 538, og þá fyrst geta þess, að þessar brtt. eru algerlega byggðar á samkomulagi menntmn., og ég held, að þær séu allar heldur til lagfæringar, en þær breyta þó á engan hátt formi frv. Að vísu hafa tveir nm. skrifað undir með fyrirvara, hv. þm. V.-Sk. og hv. 4. þm. Reykv., en sá fyrirvari snertir aðeins 13. gr., eins og getið er um í nál., og ég vil vona að þeir sjái sér fært a. m. k. að vera hlutlausir að því leyti, sem þá gr. snertir. Ég geri vitaskuld engar kröfur; mér þykir alls ekki óeðlilegt, þó að þeir eða aðrir hv. þm. flytji brtt. við þá gr., enda þótt ég óski þess alveg sérstaklega, vegna þeirrar góðu samvinnu, sem ég hefi átt við þá, að þeir verði ekki fyrstir til þess.

Ég held, að ekki þurfi að skýra brtt. Þær eru mjög ljósar og skýrt orðaðar. Ég tel sjálfsagt að lengja mál mitt ekki meira að þessu sinni. Ég get lokið ræðu minni með ósk um það, að við atkvgr. nái þetta frv. fram að ganga og því verði að umr. lokinni vísað til 3. umr.