21.12.1939
Neðri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

149. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Ég er þeim þakklátur, sem tekið hafa til máls og mælt hlýlega til þessa frv. En mér þótti miður, að hv. 4. þm. Reykv. skyldi boða brtt. við 13. gr., en í því eru engin brigðmæli af hans hálfu, því hann hefir bæði getið þess í samtali og í nál., að svo gæti farið.

Ég hefi því engu verulegu við það að bæta, sem ég hefi sagt um þetta mál, en vildi þó benda hv. 4. þm. Reykv. á það, að hann sagði í ræðu sinni að það sýni sig nú, að skólarnir hefðu að ýmsu leyti verið reistir á röngum grundvelli, bæði að því er snertir kennslufyrirkomulag og hvað snertir stofnkostnað. Þetta finnst mér heldur mikið sagt, því nú eftir 10 ára reynslu af héraðsskólal. er breytingin á kennslufyrirkomulanginu ekki gagngerð, en það er gert ráð fyrir, að kennslan sé bæði verkleg og munnleg ásamt íþróttakennslu. Það er aðeins í þessu frv. farið lengra í verklegri kennslu en í gildandi l. frá 1929, og af því leiðir auðvitað, að bóklega námið minnkar nokkuð. Er ætlunin, að það yrði sérstaklega hvað erlendu málin snertir. Ég tel, að það sé í samræmi við það, sem reynslan hefir kennt okkur, en hinsvegar sé ofmælt, að þessi starfsemi hafi í upphafi verið reist á skökkum grundvelli. Hvað snertir stofnkostnaðinn, þá reyndist það svo, að framlag á móti ríkissjóðsstyrknum fékkst ekki eins mikið og menn höfðu vænzt, þegar l. voru sett. Og þar sem það er nokkuð mikil krafa, að sýslufélög, hreppsfélög eða einstakiingar leggi fram helming stofnkostnaðar, þá þarf menn ekki að undra, þótt tekjuvonirnar brygðust. Mér finnst þessi breyt. eðlileg, þar sem reynslan hefir sýnt, að þetta atriði var í upphafi rangt hugsað. Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að þetta mál hefði í upphafi verið sótt meira af kappi en forsjá, og þau ummæli eru í samræmi við það, sem hann sagði um kennslufyrirkomulagið og stofnkostnaðinn. Ennfremur sagði hv. þm., að það væri erfitt fyrir Alþ. að fallast á þau fjárframlög úr ríkissjóði, sem gert er ráð fyrir í 13. gr. Ég tel það í sjálfu sér ekki óeðlilegt að einstakir þm. líti þannig á. Samkv. yfirliti, sem nú liggur fyrir um skuldir héraðsskólanna, eru þær um 400 þús. kr., eða nánar tiltekið 402736 kr. Þótt yfirlit þetta sé e. t. v. ekki alveg nákvæmt, þá mun það þó vera nærri því rétta. Og ég vil geta þess, að stofnkostnaður skólanna mun vera um. l,5 millj. kr., eða rúmlega það, með því þó að fara eftir mati á einstökum stofnunum, sérstaklega í sambandi við Laugarvatn. Hinir skólarnir hafa gefið upp stofnkostnað sinn. En ég treysti mér ekki vel til þess, en gaf upp það, sem bækur sýna, að eignir skólans eru virtar, en það er rétt undir 500 þús. kr. Ef við nú reiknum ¼ hluta stofnkostnaðarins, sem að framan greinir, þá verður hann um 380 þús. kr., m. ö. o., það er hér um bil sama, hvort teknar eru skuldir skólanna eða ¼ hluti stofnkostnaðar þeirra og lagt til grundvallar fyrir gerðum væntanlegrar matsnefndar. Þessa vildi ég geta, til þess að menn sjái, að ekki skiptir máli, hvor leiðin er farin. Hinsvegar er ekki gerandi lítið úr því, að þetta verða alltaf töluverð fjárútlát fyrir ríkissjóð.

Ég get hugsað mér að einhverjir spyrji, hvernig ég hugsa mér, að þessi ¼ hluti stofnkostnaðarins eða skuldirnar verði greiddar. Mér finnst eðlilegast skv. frv., að ríkissjóður taki að sér þennan hluta stofnkostnaðarins. Hinsvegar játa ég, að þetta atriði hefir ekki verið athugað til hlítar, og ég vil ekki segja ákveðið um það, hvernig ég teldi, að þessu bæri að haga, og vænti ég, að ég hljóti ekki ámæli fyrir það.

Ég hefi svo ekki meira fram að taka í sambandi við þetta mál, þar sem ég býst við, að framkomnar brtt. verði teknar aftur til 3. umr., og hv. 4. þm. Reykv. hefir einnig boðað, að hann muni þá flytja brtt. við frv. Þó þykir mér rétt að geta þess í sambandi við það sem fram kom um tungumálanámið, að hv. þm. verða að gera sér ljóst, að fjöldinn af því fólki, sem héraðsskólana sækir, býr yfir mjög takmarkaðri þekkingu á sínu eigin móðurmáli. Ég held, að það sé heilbrigt og rétt að gera vissar kröfur til stafsetningarkunnáttu og lestrar, áður en nemendum er leyft að hefja erlent tungumálanám. Eftir minni reynslu get ég fullyrt, að mörgum nemanda er það fyrir beztu, að honum sé leiðheimt með það í fullri alvöru, að ekki sé heppilegt fyrir hann að byrja að erfiða í erl. málanámi með mjög takmarkaða þekkingu á eigin tungu sem undirstöðu. Fyrir það fólk, sem ekki hefir lært að lesa sæmilega sitt eigið móðurmál, er ekki eyðandi tíma og orku í að læra erlend mál. Það mun því verða nokkur hvöt fyrir fólk til að læra sitt eigið mál, ef það veit, að ekki fæst að hefja nám í erlendum málum fyrr en sæmilega góðum árangri er náð í íslenzku. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta mál meira að sinni.