22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

149. mál, héraðsskólar

*Finnur Jónsson:

Ég á, ásamt hv. þm. Snæf. og hv. þm. Barð., skrifl. brtt. við 3. gr. frv., 2. mgr., um að síðasti málsl. þeirrar málsgr. orðist á þá leið, að erlend tungumál skuli kenna í héraðsskólunum eftir reglum, sem fræðslumálastjórnin setji. Okkur flm. þessarar till. þykir mjög óviðkunnanlegt, svo að ekki sé meira sagt, orðalag þessarar greinar og höfum viljað færa það í þann búning, sem við teljum viðunandi. Það hefir lengi verið svo, að við höfum hælt okkur af okkar alþýðumenntun, og það er vitanlegt, að bókakostur á íslenzka tungu er ekki það mikill, að menn geti notið verulegrar menntunar nema því aðeins, að þeir kunni eitthvað í erlendum tungumálum. Nú er vitanlegt, að tungumálakennsla í héraðsskólunum getur aldrei orðið fullkomin, en flestir ættu þó að geta lært að lesa a. m. k. eitt norðurlandamál. Eins og frv. nú er orðað getur verið alveg girt fyrir tungumálanám í héraðsskólunum, en það teljum við óviðunandi. Við teljum fyllilega séð fyrir því, að menn læri móðurmálið, þótt l. verði orðuð á þann hátt, sem við leggjum til. Ég viðurkenni auðvitað þá nauðsyn, sem er á því að leggja mesta áherzlu á móðurmálskennsluna, en að banna hinsvegar kennslu erlendra mála er ekki rétt. Það getur vel komið fyrir, að í héraðsskólana komi menn, sem lítillar tilsagnar hafa notið í íslenzku, en eru hinsvegar það færir til náms, að þótt þeir standist ekki inntökupróf, þá geti þeir auðveldlega læri samtímis íslenzku og t. d. eitt norðurlandamál, án þess að þeim sé í nokkru ofboðið. Ég tel alveg ófært að banna beinlínis kennslu erlendra tungumála í héraðsskólunum og vona, að háttv. deild sé okkur samdóma um það.