22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

149. mál, héraðsskólar

*Bergur Jónsson:

Ég ber fram brtt. við brtt. á þskj. 550, um það, að bætt verði við héraðsskóla að Reykhólum í Reykhólasveit. Reykhólar voru keyptir af ríkissjóði samkv. heimildarlögum frá 1937. Þetta er ljómandi skemmtileg jörð og fallegur staður. Jarðhiti er þarna nægur, og má það teljast einn mesti kostur á skólasetri. Ríkið sem eigandi jarðarinnar verður að ráðstafa henni á einhvern hátt og hefja á ný til forns vegs. Þetta er eitt af helztu höfuðbólum landsins. Ég vil þar að auki benda á það, að ungmennasamband Norður-Breiðfirðinga hefir ár eftir ár skorað á Alþ. að stofna héraðsskóla á þessum stað. Ég mun ekki leggja á móti sjálfri till. á þskj. 550, en ég vil benda á það, að flm. hennar hafa ekki neina ríkisjörð, sem geti jafnazt á við Reykhóla í þessu skyni. Þessi skóli yrði fyrir Breiðfirðinga alla, og er því till. hv. þm. Snæf. óþörf, ef mín verður samþ.

Þá vil ég minnast á till. þá, sem ég ásamt hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Snæf. flyt hér. Mér finnst það allt of harðleikið að banna kennslu erlendra tungumála í héraðsskólunum. Slíkt ákvæði er alveg neikvætt og óviðeigandi. Aftur á móti er samkv. okkar till. bægt að setja um kennslu þessara greina þær reglur, sem heppilegastar eru taldar.