22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

149. mál, héraðsskólar

*Jón Pálmason:

Ég veit ekki hvort það er af því, að kominn sé jólahugur í þingmenn, hve mikið kapp er um að fá lögfesta skóla, en mér er kunnugt um, að það er annars meiri þörf en að fá lögfesta fleiri skóla.

Hér er gert ráð fyrir einum nýjum skóla á Varmahlíð í Skagafirði. Þótt ég hafi tilhneigingu til að óska Skagfirðingum alls hins bezta, tel ég varhugavert að fara að stofna þar nýjan skóla, og hvað þá ef á að fara að stofna 3 nýja skóla í viðbót. Ég tel meiri þörf á öðru í okkar fjármálum en að bæta þar við. Vildi ég mælast til þess, að þingmenn létu það ekki henda sig að fara að samþ. það, sem hér um ræðir. Viðvíkjandi frv. vil ég segja það, að ég tel það mjög miklar framfarir, að gert er ráð fyrir að auka mikið verklega kennslu, og tel mikla von um, að með því að gera þessar menntastofnanir meira gagnmenntandi en verið hefir, megi koma í veg fyrir, að þær verði millistöð fyrir fólk til þess að flytja úr sveitunum til staða, sem hafa meiri lífsþægindi. Því er ekki hægt að neita, að í sambandi við héraðsskólana hefir risið upp spurning um það, hvort hér sé stefnt í rétta átt.

Nú liggur fyrir þinginu frv., þar sem farið er fram á að hækka stofnstyrk skólanna frá því, sem verið hefir. Ég veit, að héruðin hafa erfiðleika í sambandi við skuldir, sem hefir verið stofnað til í sambandi við héraðsskólana. Tel ég hyggilegra að sjá framan í það, hverjar þær skuldir eru, og gera þær upp á sínum tíma, heldur en að vita ekki, hvað mikla gjaldaupphæð verið er að samþykkja, þó þessar upphæðir samanlagðar máske færu fram úr tugum þúsunda. Því vil ég, að brtt. hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Sk. verði samþ. jafnvel þótt ýmsir menn telji, að hér sé sérstök þörf vegna þeirra sveitarfélaga, sem hér eiga hlut að máli. Þó að með þessu frv. sé gert ráð fyrir að bæta talsvert fyrirkomulag skólanna, tel ég, að hér sé lagt út í óþarflega mikið, ef menn ætla að fara að lögfesta að stofna hér marga nýja skóla, einkum ef miðað er við ástæður þær, sem við höfum.