22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

149. mál, héraðsskólar

*Bergur Jónsson:

Ég kann ekki við það hjá hv. 2. þm. Rang. að tala um leikaraskap í sambandi við till. þá, sem ég ber hér fram, því ef hægt er að tala um leikaraskap í sambandi við nokkra till., er það langsízt í sambandi við till. um Reykhóla, því þar ræðir um jörð, sem ríkið hefir viðurkennt, að sjálfsagt sé fyrir það að eiga og hefir alla þá kosti, sem héraðsskólajörð á að hafa: Jarðhita, möguleika til rafmagnsvirkjunar og er á sérstaklega fögrum stað.

Út af því, sem hv. þm. Snæf. segir, mun ég draga það mjög í efa, að Snæfellingar vildu ekki taka höndum saman við aðra Breiðfirðinga um héraðsskóla á Reykhólum. Ég hugsa þennan skóla sem héraðsskóla fyrir alla Breiðfirðinga og tel betra fyrir Snæfellinga og Dalamenn að sækja skóla að Reykhólum en á nokkurn annan stað. Ef um nokkurn nýjan skóla á að vera að ræða, koma Reykhólar fyrst og fremst til álita.