23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

149. mál, héraðsskólar

*Árni Jónsson:

Það mætti skilja það svo á ræðu hv. frsm., að ágreiningur væri um það, hvort þessi tilhögun um aukið verklegt nám væri til bóta eða ekki. Ég get lýst því yfir, að ég tel, að hið aukna verklega nám myndi verða til bóta, enda hefi ég ekki heyrt nein andmæli gegn því; en hér er um að ræða fjárhagsspursmál. Hv. þm. vildi slá því föstu, að héruðin gætu ekki staðið undir þeirri byrði, sem þau hafa gert. (JJ:Með þessum breyttu kringumstæðum, sem koma). Það liggur ekkert fyrir um það, og verður að álíta, að ríkissjóður geti ekki heldur staðið undir sinni byrði og eigi alveg eins erfitt með að auka sínar byrðar eins og héruðin. Annars var nokkuð erfitt að fylgja röksemdafærslu hv. þm. S.-Þ. Í öðru orðinu virðist manni þetta fyrst og fremst flutt sem gistihúsmál, og í raun og veru í sama tilgangi og þegar Hótel Borg var stofnuð fyrir nokkrum árum. Nú er það að vísu svo, að það er mjög þægilegt að geta notað héraðsskólana sem sumargistihús fyrir útlenda ferðamenn. En ég vil benda hv. þm. á það, að í sömu andránni koma fram till. um að leggja niður ferðaskrifstofu ríkisins, og hefir jafnvel verið borin fram till. um að fækka fólki, sem starfar við millilandasiglingar, og borin fram sú ástæða, að ferðamannastraumur frá útlöndum muni stöðvast til landsins. Þess vegna er það ekki sjálfu sér samkvæmt, ef ríkið hefir hugsað sér að taka upp þessa gistihúsastarfsemi fyrst nú. Þá yrði þeim styrk frestað, sem þarf vegna þessa útlendinga, á næstu árum.

Mér skildist á hv. þm. S.-Þ., að menn væru ekki eins fúsir nú að fórna miklu fyrir héraðsskólana eins og þeir voru áður, og gæti það þá bent til þess, að reynsla sú, sem fengizt hefir af héraðsskólunum, væri ekki eins ákjósanleg og menn hefðu búizt við.

Viðvíkjandi Árnessýslu benti hv. þm. á, að ef 150 nemendum, sem væru þar nú, væru ekki nema 40 úr sýslunni. Nú er þetta, eins og nafnið bendir til, héraðsskóli. Hann er stofnaður sem héraðsskóli Árnessýslu. Ég hygg, að hv. þm. S.-Þ. hafi fengið ekki lítið af heiðrinum fyrir, að þessum skóla var komið upp. (JJ: Og dálítið meira). Hvaða yfirlýsing er það þá, sem hann gefur nú? Hann gefur yfirlýsingu um það, að skólinn sé fjórum sinnum stærri en þörf er á.

Ég ætla svo ekki að segja meira um þetta. Ef hv. þm. S.-Þ. vill taka í hina framréttu hönd og greiða atkv. með þeirri miðlunartill., sem ég hefi borið fram, þá mun ég greiða atkv. með frv. og reyna að beita áhrifum mínum til þess, að frv. fái greiðan gang í gegnum þingið. Ég skora því á hv. þm. að gera þessa miðlun.