25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

128. mál, heilbrigðisnefndir og heilbrigðissamþykktir

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Þegar núgildandi l. um heilbrigðissamþykktir voru sett 1905, var heilbrigðislöggjöfin næsta fáskrúðug og lítið annað en almenn sóttvarnarlög. Fæstu öðru var ætlað rúm í heilbrigðissamþykktum einstakra sveitarfélaga.

Síðan hefir þessi löggjöf aukizt mjög, og hafa nú verið sett sérstök l. um margvísleg heilbrigðismálefni, sem áður voru ákveðin í heilbrigðissamþykktum. Þetta hefir leitt til þess, að mörg ákvæði heilbrigðissamþykkta eru mjög í ósamræmi við gildandi l., enda nokkrum erfiðleikum bundið fyrir einstakar sveitarstj. að semja slíkar samþykktir, vegna þess, að þær hafa ekki nægilega fullkomið yfirlit yfir heilbrigðislöggjöfina. Er ætlazt til, að þetta frv., ef að l. verður, ráði nokkra bót á þessum vandkvæðum, og er gerð ýtarleg grein fyrir því í grg. frv.

Ég hirði ekki um að rekja það nánar nú við þessa umr., en óska, að frv. verði að umr. lokinni vísað til allshn.