02.03.1939
Efri deild: 9. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

22. mál, tollskrá

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Það er ekki ástæða til að fjölyrða mikið um þetta mál, og mun ég því geyma umr. um það þangað til það kemur aftur frá n. Mér finnst þó óviðkunnanlegt að láta samt ekki nokkur orð fylgja því til þeirra hv. þdm., sem eiga ekki sæti í n. og gefa vildu því einhvern gaum, meðan starfað er að því í n.

Eins og menn sjá, er höfuðbreytingin í því fólgin, að öll þau l., sem áður giltu um innheimtu tolla, eru hér felld saman í eina heild, eina tollskrá, og skal ég ekki fara að telja upp, hvaða l. hafa áður gilt um það, en aðeins nefna þau helztu. Eru það fyrst og fremst gömlu tollalögin og þar næst öll ákvæði um verðtoll og bráðabirgðaverðtoll, 25% gengisviðaukinn og 12% viðauki þar á ofan, ennfremur viðskiptagjald. Þetta er allt runnið saman í eina tollskrá.

Ég held, að ekki orki tvímælis, að þetta er mikil framför. Hvað sem annars má segja um verk mþn., þá held ég, að ekki sé hægt að neita því að þessi breyt. gerir alla innheimtu miklu auðveldari, og sömuleiðis er miklu aðgengilegra fyrir þá, sem eiga að greiða gjaldið, að geta séð auðveldlega, hvaða gjald á hverri vöru er, í stað þess að nú þarf að slá upp í mörgum stöðum til þess að sjá, hvað mikinn toll á að greiða af hverri vörutegund. Þá tel ég ekki hvað sízt til bóta fyrir löggjafann, að þessi breyt. sé gerð. Sannleikurinn er sá, að það hefir í raun og veru verið ómögulegt á undanfarandi þingum að gera sér fullkomlega grein fyrir, hvaða afleiðingar hafa orðið af einstökum breyt. á tolllögunum en hér eftir ætti það verk að vera tiltölulega auðvelt, því að jafnframt því sem innflutningsgjaldið er hér sett í eina tollskrá, er meiningin. að verzlunarskýrslurnar verði hér eftir að verulegu leyti lagaðar eftir henni.

Af þessu, sem ég hefi nú sagt, sjá hv. þdm., að öll aðflutningsgjöld, að undanteknu gjaldi af benzíni, eru sameinuð í eitt í þessari skrá.

Nú vill kannske einhver segja, að það sé hart að lögfesta nú fyrir fullt og allt þá bráðabirgðatolla, sem hingað til hafa verið lögfestir frá ári til árs. Þar til er því að svara, að þótt einhver af þessum l. hefðu verið látin gilda áfram sem bráðabirgðalög, þá eru eins og nú standa sakir engar líkur til annars en að hvort sem var hefði orðið að framlengja þau. Vilji nú einhver spara útgjöld og þar af leiðandi lækka innflutningsgjöldin, þá er það verk ekki erfiðara fyrir hann en áður, því að þá er ekki annað en annaðhvort lækka allan bálkinn um vissa hundraðstölu, eða þá hitt, sem mér finnst liggja fullt svo nærri, að taka einhverja stóra vöruflokka og færa niður innflutningsgjöldin af þeim. Nm. eru með þessu á engan hátt að láta í ljós, að þeir vilji, að þessir tollar, sem hingað til hafa gilt til bráðabirgða, skuli gilda áfram og áfram, heldur er það aðeins viðurkenning þeirra á því, að eins og nú standa sakir verði að framlengja þessa tolla.

Ég skal ekki fjölyrða mikið um fyrirkomulag þessarar tollskrár. Tollskrár má semja á tvennan hátt. Það má raða vörutegundum eftir stafrófsröð, og hefir það oft verið gert; er þá handhægt að slá upp í skránni. En þá koma í ljós mjög áberandi gallar. Þá er ekki hægt að raða vörunum niður í neinu samhengi. Upphafsstafurinn í nafni vörunnar er einn látinn ráða, en ekkert farið eftir verðlagi eða vörutegund. Því er það, að vilji einhver vita um toll t. d. á ávöxtum, vefnaðarvöru eða einhverju slíku, þá verður hann að leita gegnum alla skrána til að vera viss. Það er því bersýnilegt, að heppilegast er að raða eftir tegundum, enda er það gert í þessari skrá, enda hefir n. sú, sem þjóðabandalagið skipaði til þess að athuga slík mál, komizt að þeirri niðurstöðu, að bezt sé að raða eftir vörutegundum. Norðurlandaþjóðirnar, sem hafa tollskrár, stefna líka að því að raða þannig. Kostinum við að raða eftir stafrófsröð er líka hægt að ná með því að láta stafrófsskrá fylgja tollskránni. Vegna tímaskorts er hún ekki komin enn, en henni mun verða útbýtt vélritaðri, svo fljótt sem hún verður tilbúin. Af praktískum ástæðum er hún ekki prentuð, því að ef þingið breytti skránni, þá breyttist þessi með. Er því rétt að ganga ekki alveg frá henni nú þegar.

Þá vil ég aðeins minnast á tolltaxtann. Menn sjá, að á flestum vörutegundunum eru 2 tolltaxtar, en til mála gat komið að hafa hann aðeins einn, og miða þá annaðhvort við vörumagnið eða þá verð vörunnar. Ég skal ekki fara langt út í það, hvor tolltegundin sé hentugri, en n. komst að því eftir allnákvæmar umr., að báðir þessir flokkar hefðu sína kosti og sína galla. Vörumagnstollurinn hefir þann stóra kost, að hann er auðveldur í framkvæmd. Þá þarf ekki annað en að ganga að vörunni og mæla hana eða vega og reikna tollinn þar af, og þurfa þar engar skýrslur að koma til. Aftur á móti hefir hann þann stóra galla, að þá fer tollurinn ekkert eftir verðmæti vörunnar, og þyrftu þá að vera ákaflega margir tolltaxtar til þess að hægt yrði að komast nálægt því, sem skynsamlegt væri í þessum efnum, og þótt stórbreytingar yrðu á verðlagi, — t. d. verð stórhækkaði —, þá gæfi það ekki ríkissjóði neitt auknar tekjur. Annars á ríkissjóður vitanlega mikið undir því, hvert verðlag er á vörunni. Er því óhentugt að miða tollinn við vörumagnið eitt. Hinsvegar er verðtollurinn að þessu leyti hentugur, en hann hefir þann ókost í framkvæmdinni, að hann verður að byggjast meira og meira á skýrslum, sem gefnar eru, og því fylgir sá sami ókostur sem öllum skýrslum, að hafa verður miklar gætur á, að þær séu réttar. En sannleikurinn er sá, að eftir því sem meira er gefið út af slíkum skýrslum, því auðveldara er að framkvæma þetta. Það vekur fljótt athygli, ef varan hjá einhverjum einstökum innflytjanda er miklu ódýrari en hjá öðrum. Aðstoðarmaður n., sem er þessum málum mjög kunnugur, segir frá því, að í Svíþjóð séu 3 menn, sem hafi þetta eftirlit með höndum og komist vel yfir það og komist mjög fljótlega að því, ef einhver ætlar að flytja vöru inn með miklu lægra verði en aðrir. Þessi meginókostur er því ekki eins hræðilegur og mönnum kynni að virðast í fljótu bragði, og það verður aldrei hægt til lengdar að skjóta sér undan að greiða verðtoll með því að gefa upp rangar tölur.

N. hefir því reynt að sameina þessar 2 tollaaðferðir. Eins og hv. þdm. sjá, eru hér tveir dálkar í frv. Í þeim fremri er vörumagnstollur, en í þeim síðari verðtollur, og allur þorri þeirra vara, sem í þessari skrá eru, er undir þessum 2 tegundum tolla.

Að öðru leyti komu til greina tvær breyt., sem gera mætti á núverandi aðferð við tollálagninguna. Annað er það, að hingað til hefir verðtollurinn verið reiknaður af fob-verði í stað þess að reikna hann cif, þ. e. a. s. miða við verð vörunnar, þegar hún er komin á ákvörðunarstað. N. féllst á að hverfa frá hinni fyrri aðferð til hinnar síðari, sem sé að reikna eftir cif-verði, sem er í raun og veru sú eina aðferð, sem vit er í, því að það er það raunverulega verð, sem varan kostar, þegar hún er komin á þann stað, þar sem tollurinn er lagður á, en ekki því verði, sem er á henni, þegar hún af hendingu fer frá öðrum löndum og um borð í skip. Annars mætti í raun og veru láta í ljós vafa um, hvar fob-verðið ætti að reikna. Ókosturinn er sá, að það verður að reikna allan tollinn upp. Með óbreyttum tolli reiknað cif, verður hann allt of hár. Það varð því að reikna allt upp af því upphaflega verði að viðbættum flutningsgjöldum og vátryggingargjaldi. Í framkvæmdinni reyndist það þannig, að vátryggingargjaldið var í flestum tilfellum svo lítið, að það skipti nálega engu máli, þegar tollurinn var endanlega „afrúnnaður“. Það, sem lagt var til grundvallar, voru flutningsgjöld með skipum Eimskipafélagsins frá Kaupmannahöfn, og eftir því er allur tolltaxti reiknaður um, og má sjá þann útreikning á fskj. 1.

Hin breyt., sem gat komið til mála, var að reikna vörutollinn alltaf af nettóþyngd vörunnar. Þetta er í vissu falli skynsamlegast. Í raun og veru er ekki vit í að tolla umbúðir þannig, að vara, sem er í sterkum umbúðum, verði hærra tolluð en sú, sem vafin er innan í striga, en n. sá sér samt ekki fært að fara inn á það sérstaklega, því að ennþá er svo erfitt um útreikninga, vegna þess hvað verzlunarskýrslurnar eru öðruvísi flokkaðar en tollskráin. N. taldi réttara að gera ekki allar þessar breyt. í einu. Þegar þessi tollskrá kemur til framkvæmda og verzlunarskýrslurnar verða í samræmi við hana, verður hægara að breyta þessu. N. hvarf því frá að gera þessa útreikninga og auka þar með þá margvíslegu óvissu, sem er í útreikningum hennar um, hvað þessir nýju tolltaxtar muni gefa.

Ég skal svo ekki fara mikið fleiri orðum um þetta mál, því að ég held, að varla sé ástæða til að gera annað nú en að gera mönnum auðveldara fyrir um nokkur atriði. Langmestur vandi var fyrir n. að gera sér grein fyrir, hvaða afleiðingar þessi breyt. hefði fyrir hag ríkissjóðs. Þessi vandi stafaði bæði af því, að nokkrar breyt. höfðu verið gerðar á tolltaxtanum og sömuleiðis af því, að fyrirkomulagið er breytt, og getur þetta breytt nokkuð, hve miklar tolltekjur fást af vörunum. T. d. varð að samræma taxtann á vörunum, sem sumstaðar eru a. m. k. 2. Fyrst er 25% tollur og svo þar ofan á 12%. Við þetta komu fram mjög hjákátlegar tölur og fjöldi af smábrotum, en n. setti sér það mark, að hafa þetta alltaf heilar tölur. Það tókst að vísu ekki alveg, en þó að mestu leyti, því að n. færði taxtann til, eins og sjá má á fskj., ýmist upp eða niður, eftir því hvort nær var, eða eftir því, sem henni fannst eðlilegast í hvert skipti. Allt þetta hafði í för með sér nokkrar breytingar, sem ekki er auðvelt að gera sér fulla grein fyrir. Ýmsir tolltaxtar hafa verið lækkaðir af n., þannig að enginn yrði hærri en 90%, Má kannske deila um það út af fyrir sig, hvort þetta hafi verið rétt. Annars hefir n. birt mikið fylgiskjal með frv., til þess að hv. þm. geti sem bezt fylgzt með því, sem n. hefir gert. 1. fylgiskjal er reiknað út eftir tölum verzlunarskýrslna fyrir 1937, en n. þótti þó vissara að láta líka reikna þetta fyrir árin 1935 og 1936, þó að þeir reikningar séu ekki birtir í slíkri heild sem hinir. Síðan var svo áætlun fjárl. fyrir 1939 lögð til grundvallar með þeim skakka, sem venjulega kemur fram í reynslunni, og þegar þetta allt var borið saman, fekkst út sú tala, sem n. miðaði við. Að vísu stendur þetta ekki alveg heima, en ég er ákaflega lítið hörundsár fyrir því, þó að muna kunni 200–300 þús. kr. á svona hárri upphæð, því að við þekkjum allir, hve erfitt er að láta slíkar áætlanir standast að fullu.

Það var tilgangur n. og ósk að gera þessa breytingu þannig, að nokkurn veginn væri öruggt, að ríkissjóður biði ekki halla af, og sjálfur álit ég, að tollskráningin sé nokkurn veginn rífleg, svo að fremur litlar líkur séu til, að hún fái ekki staðizt.

Mun ég svo ekki fjölyrða um þetta að þessu sinni. Ég vil þó geta eins atriðis, þó að ef til vill sé ekki ástæða til að nefna það hér. Eins og hv. þm. mun vera ljóst, hefir milliþn. sjálf ekki getað annað því geipilega starfi, sem hér hefir verið framkvæmt, því að hér hefir það starf verið unnið á mjög skömmum tíma, sem annarstaðar hefir tekið nokkur ár. Samning slíkrar tollskrár er feiknamikið verk, því að ekki er hægt að taka upp óbreyttar tollskrár annara landa, þó að vitanlega sé að þeim mikill stuðningur. Verð ég að segja, að ég er alveg hissa á því, hversu fljótt starfið vannst. N. hefir haft sér til aðstoðar fasta starfsmenn, eins og til dæmis Sigtrygg Klemensson, sem hefir unnið feiknaverk. Við getum gefið honum þann vitnisburð, að hann sé afburðastarfsmaður. Aðrir hafa líka unnið mikið verk, eins og t. d. tollstjórinn í Reykjavík, sem hefir einstaka þekkingu á þessum málum. Þá hefir n. um einstaka þætti skrárinnar notið aðstoðar sérfræðinga, svo sem kemiska kaflann, þar sem við stóðum uppi sem glópar, og get ég raunar sagt fyrir mig, að ég skil þar engu meira nú en áður.

Þegar hv. þm. fara að lesa skrána, munu þeir sjá, að ekki er alstaðar málið á henni fallegt, og stundum er það beinlínis ljótt. En hér var ekki um annað að velja, t. d. í kemiska kaflanum. Í slíkum tilfellum verður að nefna nöfn, sem menn þekkja. Það er tilgangslaust að búa til nýyrði í tollskrár. Því notuðum við víða hin íslenzkuðu útlendu orð. En í sérstakri fylgiskrá er sjálfsagt að taka upp eins mörg íslenzk heiti og hægt er að fá.

Þó að fjhn. Ed. flytji frv. þetta, geri ég ráð fyrir því, að fjhn. beggja deilda verði að starfa saman að þessum málum, og fyndist mér það í alla staði eðlilegast.