15.02.1939
Sameinað þing: 1. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna manna

Aldursforseti (IngP):

Góðir þingbræður. Dauðinn hefir nú um hríð látið skamma stund stórra högga milli í garð vorn þingmanna. Frá því er síðasta þingi lauk hefir enn verið höggvið skarð í hópinn, er eina konan, sem sæti átti á Alþingi, frú Guðrún Lárusdóttir, var burt kvödd með sviplegum hætti 20. ágúst síðastliðinn. Áður en Alþingi tekur til starfa að þessu sinni vil ég með nokkrum orðum minnast þessarar merkiskonu.

Guðrún Lárusdóttir fæddist að Valþjófsstað í Fljótsdal 8. janúar 1880, dóttir séra Lárusar Halldórssonar, prófasts að Hofi í Vopnafirði Jónssonar, og konu hans Kirstínar Pétursdóttur organleikara Guðjohnsens. Hún fluttist til Reykjavíkur með foreldrum sínum 1899, en þá gerðist faðir hennar prestur fríkirkjusafnaðarins hér í bænum. Árið 1903 giftist hún Sigurbirni Ástvaldi Gíslasyni guðfræðikandídat, og reistu þau bú í Ási hér í bænum og bjuggu þar jafnan síðan. Snemma þótti Guðrún Lárusdóttir bera af öðrum jafnöldrum sínum að gáfum og mannkostum, og snemma vaknaði hjá henni áhugi fyrir mörgum þeim málum, er hún bar síðan fyrir brjósti, en þau mál voru einkum trúmál og margháttuð mannúðar- og félagsmál. Þegar á æskuárum tók hún virkan þátt í starfi templara og ýmsum safnaðarmálum. Árið 1912 var hún valin ein meðal hinna fyrstu kvenna, er sæti tóku í bæjarstjórn Reykjavíkur, og átti þar sæti í 6 ár. Þá var hún kosin í fátækranefnd og gegndi því starfi 1919–1922, en fátækrafulltrúi var hún skipuð 1930 og hafði það starf á hendi til dauðadags. Orð er á því gert, hve mikið og óeigingjarnt starf hún vann í þessum málum, hve vakin hún var og sofin í að liðsinna bágstöddu fólki og greiða úr margvíslegum vandamálum þess, samfara húsmóðurstarfi á stóru og barnmörgu heimili, og ber þó öllum saman um, að skyldur sínar á heimilinu hafi hún rækt eins og bezt verður á kosið. Jafnhliða hinum miklu og mörgu störfum sínum hefir hún og ritað eigi alllítið, samið allmargar skáldsögur og ýmsar ritgerðir, einkum um trúmál og uppeldismál.

Á Alþingi var hún kosin 1930 og átti sæti í þinginu jafnan síðan sem landskjörinn þingmaður, sat alls á 11 þingum. Á þinginu beitti hún sér einkum fyrir þeim málum, er henni voru jafnan hugstæðust, ýmsum mannúðarmálum. Má þar nefna fávitahæli, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga og heilsuhæli fyrir drykkjumenn. Húsmæðrafræðslu og menntun kvenna lét hún einnig mjög til sín taka. Hún var glöggskyggn á menn og málefni, prýðilega máli farin, prúð og hógvær í allri framgöngu og þýð í samvinnu, en hélt þó jafnan fram málstað sínum af fullri einurð og skapfestu.

Þessi fjölhæfa og merka forustukona er nú horfin úr hópi vorum. Ég vil biðja háttv. þm. að votta minningu hennar virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Þingmenn risu úr sætum sínum:]