14.04.1939
Efri deild: 39. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

22. mál, tollskrá

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég get byrjað á því að lýsa því yfir, að ég mun verða við þeim tilmælum hv. 10. landsk., að taka brtt. mínar aftur til 3. umr. þessa frv., til þess að hægt verði að athuga þær í fjhn. í sambandi við þær brtt., sem hv. 10. landsk. hefir borið fram við þetta frv. En þó vildi ég við þessa umr. málsins nota tækifærið til þess að tala ofurlítið um þessar brtt. Ef ég notaði sömu aðferð sem hv. 1. þm. Reykv., að taka hverja grein út af fyrir sig og rökstyðja bana ýtarlega, myndi mér naumast endast dagurinn til þess, og þess vegna verð ég hér að stikla meira á stærri atriðunum og ræða aðeins um nokkur aðalatriði í þessum brtt. Ég vil svo biðja hv. dm. að athuga nokkur einstök atriði nánar. Ég minntist á það hér í d. við l. umr. þessa frv., að í frv. því, sem kom frá mþn. í skatta- og tollamálum, hafa tollar á nauðsynjavörum verið hækkaðir stórlega frá því, sem áður var. Ég hélt því einnig fram þá, að þetta væri algerlega röng stefna, og fyrir því liggja nú enn ríkari ástæður en þá var, þar sem gengi íslenzkrar krónu hefir verið lækkað um 22%. Þess vegna er nú ennþá meiri ástæða til þess en áður að lækka tolla á nauðsynjavörum, vegna þeirrar verðhækkunar, sem gengislækkunin hlýtur að hafa í för með sér. En það hefir ekki verið gert, því að háu tollarnir á nauðsynjavörum eru látnir haldast, til þess að auka dýrtíðina enn meira, auk þess sem verðtollurinn hækkar raunverulega með hækkuðu gengi.

Í samræmi við þetta, sem ég hefi nú sagt, hefi ég borið fram allmargar brtt. við frv. um að lækka tolla á þeim vörum, sem eru brýnustu nauðsynjar. Í þessum brtt. eru fyrst taldar kartöflur, kaffi, hveiti og sykur. Þessar vörur eru lífsnauðsynjar hinna fátæku, og hvað kartöflurnar snertir hefir komið till. frá fjhn. um að lækka toll af þeim, eins og ég hefi farið hér fram á, og er sú brtt. mín því fallin burt. Þetta er það, sem ég vil segja um brtt. mínar viðvíkjandi lækkun tolla á nauðsynjavörum. En hvað tollskrárfrv. fjhn. snertir eru það einkanlega tollar á vörum til landbúnaðar og sjávarútvegs, sem hafa verið færðir í allmjög sanngjarnara horf en áður var, og vil ég sízt amast við því. En hinsvegar hefir iðnaðurinn orðið mjög afskiptur, þótt þar væri þörf mikilla úrbóta. Þess vegna hefi ég gert allmargar brtt. um lækkun tolla af vörum, sem til iðnaðar eru notaðar, og ætla ég nú að víkja nánar að þessum brtt. Þar eru fyrst taldar járnvörur til skipasmíða, og legg ég til, að tollur af þeim verði allmikið lækkaður, svo sem af skrúfum, fleinum, boltum, skrúfboltum og róm; ég legg til, að vörumagnstollur af þeim verði aðeins 2 aurar og verðtollur enginn. Það eru ekki líkur til þess, að þessar vörum verði framleiddar hér á landi, og í þessum brtt. mínum er tollurinn af þeim færður til samræmis við toll af óunnu járni í stöngum. Samkv. tollskránni er lækkaður tollur af sumum vörum til bátasmíða, t. d. er lagt til, að eik verði tollfrjáls, en til þess að þær brtt. nái tilgangi sínum, þá þarf líka að gera þær breyt., að annar trjáviður en eik verði tollfrjáls, enda er gert ráð fyrir því í brtt. mínum, en í frv. eins og það kemur frá fjhn. er aðeins lagt til, að þilfarsplankar verði tollfrjálsir.

Einnig legg ég til, að tollur á sementi verði lækkaður að miklum mun. Í till. frá fjhn. er lagt til, að ofurlítil lækkun verði gerð á tolli af sementi frá því, sem var í till. mþn. í skatta- og tollamálum, en ég tel, að sú lækkun muni hafa tiltölulega litla þýðingu. Hinsvegar myndi það muna miklu, ef vörumagnstollur af sementi yrði lækkaður niður í 20 aura af hverjum 100 kg., og verðtolli algerlega sleppt. Sement er efni, sem er bráðnauðsynlegur liður í einum aðalatvinnuvegi íslenzku þjóðarinar, sem sé atvinnu við byggingar, og tel ég nauðsynlegt, að það sé ekki hátollað. Það, sem ég hefi nú minnzt á, tel ég einna þýðingarmestu brtt., sem ég flyt við tollafrv.

Þá er lagt til, að tollur á baðkerum, salernum, vatnskössum, þvagskálum, þvottaskálum, eldhúsvöskum og hlutum til þeirra verði lækkaður að miklum mun, þar sem þetta eru nauðsynlegar hreinlætisvörur í allar byggingar. Sömuleiðis er lagt til, að tollur af vaxi verði lækkaður að allmiklum mun og fært til samræmis við aðra nauðsynlega feiti til iðnaðar. Vax er notað til ýmislegs iðnaðar, t. d. í skósvertu og bón.

Þá er lagt til, að lækkaður verði tollur á vélum til iðnaðar til samræmis við toll á vélum til landbúnaðar og sjávarútvegs. Einnig er lagt til, að tollur á smíðatólum verði færður til samræmis við toll á verkfærum til landbúnaðar.

Þá er lagt til, að tollur á kalkerpappír verði færður til samræmis við toll á ritvélapappír, og tollur á cellofanpappír verði eins og á öðrum umbúðapappír.

Þá er loks ein till. til hækkunar. Er lagt til, að tollur á bátum verði hækkaður dálítið, þ. e. a. s. bátum, sem hægt er að smíða hér á landi.

Þá er till. um, að nokkrar vörur verði tollfrjálsar. Það er lyf og lækningatæki. Ég tel þetta sjálfsagða till. af þjóðfélagslegum ástæðum, sem engin ástæða sé til að rökstyðja nánar.

Með þessum till. er mjög langt frá, að tollskránni séu gerð þau skil, sem ég vildi gert hafa, en þetta eru þó mjög þýðingarmikil atriði, sem ég vil láta nægja í bili.

Ég endurtek, að ég er mjög fús að taka till. mínar aftur til 3. umr., svo að hægt verði að athuga þær í sambandi við till., sem fram koma milli umr.