08.11.1939
Efri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

22. mál, tollskrá

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég stend aðeins upp til þess að taka þátt í umr. um eitt atriðið í þessu frv. Það er bað atriði, hvort reikna eigi tollinn af cif-verði, eins og gert er í þessu frv., eða hvort reikna eigi hann af fob-verði, eins og áður hefir verið gert. Ég álit þessa breyt. í frv. mjög til bóta. Það er einmitt núna mikill kvíði í mönnum um það, að tolltekjurnar muni lækka, vegna minnkandi innflutnings, eins og fram kom hjá hv. frsm. Í þessu sambandi líta menn hýru auga til tollskrárinnar og vona, að hún muni geta bætt eitthvað upp af þeirri lækkun, vegna þess að miðað er við cif-verð í henni. En mér finnst það vera nauðsynlegt, að menn reyni að gera sér grein fyrir því, hvað þessi farmgjaldahækkun hefir mikil áhrif á tolltekjurnar. Ég vildi því beina því til hv. fjhn., að taka til athugunar, að reynt væri að áætla, hvað þessi flutningsgjaldahækkun myndi hafa miklar aukatekjur í för með sér, miðað við nokkurnveginn sama innflutning og verið hefir undanfarin ár. Ég sé ekki, að þetta þyrfti að seinka neitt afgreiðslu málsins.

Ég vil að lokum segja það fyrir mitt leyti, að ég verð skilyrðislaust að telja það kost við þetta frv., að það hafi í för með sér auknar tekjur fyrir ríkissjóðinn, umfram það, sem upphaflega var gert ráð fyrir. En það er auðvitað gefið mál, að vegna styrjaldarástandsins verður tollhækkunin meiri en upphaflega var gert ráð fyrir.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Það var aðeins þetta eina atriði, sem ég vildi minnast á.