18.04.1939
Neðri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Sigurður E. Hlíðar:

Vegna þess að hv. frsm. sjútvn. er ekki viðstaddur, þykir mér rétt að gera hér nokkra grein fyrir áliti n. á þskj. 151, þar sem sjútvn. leggur til, að frv. verði samþ., þó einstakir nm. áskilji sér rétt til að bera fram brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég á hér eina brtt. við frv., og er hún á þskj. 148, og felst brtt. mín í e-lið þess þskj. Hún er í því fólgin, að í stað orðanna „allt að 150“ í 3. málsgr. sömu lagagr. komi: allt að 250. En þessi lagagr. er 3. gr. núgildandi l. Samþ. þessarar brtt. þýddi því það, að vátryggingarfélögum væri heimilt að vátryggja báta, sem væru allt að 250 smál. brúttó. Þessi brtt. er fram komin fyrir ósk útgerðarmanna á Akureyri, sem hafa leitað álits um þetta hjá Vélbátatryggingu Eyjafjarðar, og stjórn þess félagsskapar hefir mælzt til þess, að ég kæmi á framfæri brtt. um þetta.

Ennfremur hefir Vélbátatrygging Eyjafjarðar snúið sér til Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum og sent Samábyrgðinni ályktun sína, og eru a- og b-liður frv. í samræmi við þá ósk þess félags, er fram kemur í ályktuninni. Við í sjútvn. þessarar hv. d. höfðum tækifæri til að tala við formann Samábyrgðarinnar, og sagðist hann fyrir sitt leyti ekkert leggja á móti þessu, ef vátryggingarfélagið sjálft þarna nyrðra vildi taka á sig það, sem þessi breyt. hefir í för með sér. En svo er mál vaxið, að þessi till. um breyt á þessu heimildarákvæði er þannig til komin, að á Akureyri eru nokkrir línuveiðabátar, sem hafa hærri tonnatölu en almennt gerist og eru aðeins notaðir til síldveiða 2–3 mánuði úr árinu, en notaðir til annars veiðiskapar aðra tíma. Eigendum þessara skipa þykir hart að þurfa að borga vátryggingargjöld af þessum skipum árið um kring, þó þeir noti þau ekki nema stuttan tíma úr árinu. Óskir þeirra eru því í þá átt, að vátrygging þessara báta gildi aðeins þann tíma, sem þeir eru notaðir á hverju ári.

Ég vona, að hv. þd. líti á þetta mál með sanngirni, svo að þessi brtt. nái fram að ganga.