09.11.1939
Efri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

22. mál, tollskrá

*Erlendur Þorsteinsson:

Við hv. 1. þm. Reykv. gætum vafalaust stælt nokkuð lengi um þessa brtt. mína og ýmislegt annað í því sambandi. En ég vil leyfa mér að benda á, að það er mikill munur á því, hvort tollur hækkar ákveðið um 25%, eða hvort heimild er til þess, sem ekki yrði notuð nema sérstakar ástæður væru fyrir hendi, eins og e. t. v. má segja, að séu nú. Ég fæ ekki séð, að ekki sé betra að greiða háan toll í eitt ár en að fastbinda þá hækkun fyrir framtíðina, eins og verða mundi eftir till. milliþn. Ég hygg, að hver einasta lækkun á tollum sé til góðs.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um brtt. mína, um muninn á heimild og skyldu, þá er þar á reginmunur að mínum dómi. Þar sem skylda hvílir á, er það ófrávíkjanlegt skilyrði, að svona skuli eitt eða annað vera, en sé það heimild, er hægt að láta ákvæðið gilda. Ég vil láta breyta þessu vegna þess, að ef einhverjir komast að betri kjörum með flutningskostnað en algengt er, þá fái þeir að njóta þess, en menn verði ekki neyddir til þess að greiða ákveðið gjald. Væri frv. samþ., yrði að gera það, vegna þess að það væri skylda.

Hv. 1. þm. Reykv. var að bera blak af milliþn. um það, að hún hefði ekki gert sér grein fyrir muninum, sem er á því að reikna toll af cif-verði í stað fob-verðs. Ég hefi ekkert á móti því, að það sé reiknað af cif-verði, en tel hinsvegar, að nefndinni hafi borið skylda til þess að gera grein fyrir, hverju munurinn á þessu tvennu nemur, sérstaklega áður en milliþn. ber fram frv. um tollahækkun á ýmsum nauðsynjavörum, sem eru þungavörur. Á fundi hjá okkur í fjhn. mætti forstjóri grænmetisverzlunar ríkisins. Hann lagði fram útreikninga og tölur og sýndi fram á, að tollur af ýmsum vörutegundum væri 15–20% hærri skv. tollskrárfrv. milliþn. heldur en áður hefir verið, og svo mun vera um enn fleiri vörutegundir. En rétta leiðin til að fá rétta mynd af þessum mun, sem milliþn. fór þó ekki, hefði verið að láta nokkrar verzlanir reikna út, hver tollurinn er á hverri ákveðinni vörutegund, og fara svo eftir því.

Þá mun og koma fram tollahækkun á fleiri vörutegundum en milliþn. vill vera láta.

Ég ætla ekki að fara að stæla um nauðsyn lyfja, það er ekki sök milliþn., þótt einstöku læknar eða lyfsalar kunni að misnota innflutning þeirra, en allir munu viðurkenna, að lyf, a. m. k. sum lyf, eru ómissandi, og hár tollur á þeim kemur mest niður á þeim, sem fátækastir eru og bágast eiga, því fæstir neyta þeirra aðrir en þeir, sem sjúkir eru, og þá oftast um leið báglega staddir að öðru leyti.

Ég vil benda hv. 1. þm. Reykv. á, að ekki er nema eðlilegt, að milliþn. komi með nokkur rök fyrir því, hvers vegna eðlilegt sé, að hún miði innflutninginn við það, sem hann hefir verið lægstur. Það þarf hreint ekki svo mörg ár aftur í tímum til þess að meiri innflutningur komi í ljós en sá, sem hún miðar við, og þarf ekki heldur að verða langt í land með að innflutningurinn aukist frá því, sem nú er.

Ég man ekki, hvort það var nokkuð annað, sem sérstaklega þurfti að taka fram í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Reykv., en vona, að hv. þdm. sjái nauðsyn þess að samþykkja brtt., sem ég hefi lagt fram.