09.11.1939
Efri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

22. mál, tollskrá

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég hefi því miður ekki tíma til þess að fara nákvæmlega út í það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni áðan. Ég vil aðeins segja það, að ég get ekki skilið, í hverju það liggur, að mín brtt. valdi meiri ruglingi og ósamræmi í tollskránni en till. fjhn. Till. mín fer aðeins fram á að lækka tolla á ýmsum nauðsynlegum þungavörum til iðnaðar. Ef samræma á alla tollskrána, þá þyrfti að gera miklu fleiri till. en hv. fjhn. hefir gert, en það er hægt að laga smátt og smátt, með því að bera fram brtt. jafnóðum og frv. um tollskrá kemur til meðferðar og tími vinnst til að athuga það.

Viðvíkjandi farmgjöldunum og því, hvort eðlilegt sé að reikna toll af cif-verði, vil ég leyfa mér að segja, að eðlilegt er, enda þótt hv. 1. þm. Reykv. vilji ekki skilja það, að tollur sé ekki reiknaður af farmgjaldi eins og það er nú, né af stríðsvátryggingu, þar sem með því er verið að hækka óheyrilega dýrtíð á flestum nauðsynjavörum, en tollurinn þá ekki lengur miðaður við eðlilegt verð varanna. Er þá komið inn á allranglátan grundvöll, ef taka á toll af flutningsgjöldum nauðsynjavara til landsins. Ég tel ekki, að ástandið sé enn svo slæmt, að um slíkar ráðstafanir þurfi að ræða. En fari svo, að slíks gerist þörf, þá verður það áreiðanlega síðasta ráðstöfunin, sem gera á að mínum dómi, sem sé að gripa til þess að auka dýrtíðina í landinu til þess að auka tolltekjurnar. Ef slíkt þarf að gerast, þá verðum við að taka öll okkar fjármál til rækilegrar endurskoðunar, sem og fjárlögin, en hitt ætti að vera það síðasta, sem gert yrði.