16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

22. mál, tollskrá

*Ísleifur Högnason:

Síðan tollskráin var lögð fyrir þingið, hafa orðið allmiklar breyt. á öllu verðlagi. Þess má geta til dæmis, að verð á kornvörutegundum hefir tvöfaldazt, og má búast við, að næsta sending verði allt að því þrefalt dýrari en áður en stríðið brauzt út. Þessi verðhækkun stafar m. a. af því, að flutningsgjaldið hefir margfaldazt á þessum tíma. Ef frv. hefði verið samþ. eins og það lá fyrst fyrir, hefði hækkunin numið um 700 þús. kr. Með því að verðtollurinn er miðaður við verð vörunnar kominnar hingað til landsins, hlýtur þessi breyt. ein að leiða af sér hækkun á tollvöru, sem nemur þúsundum ef ekki milljónum króna. Þinginu barst frá ölgerðinni Agli Skallagrímssyni sú niðurstaða af rannsóknum hennar, eð efnivörur myndu hækka mikið, og kemst þetta fyrirtæki að þeirri niðurstöðu, að hækkunin mundi nema um 73%. Það kann að vera, að þarna sé um meiri hækkun að ræða en meðallag af allri tollskránni, en samt sem áður sér hver maður, að breyt., sem orðið hefir á flutningsgjaldi, hlýtur að raska öllum útreikningum, sem gerðir voru þegar tollskráin var samin. Við höfum leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 309, sem er shlj. þeirri brtt., sem hv. 1. landsk. bar fram við tollskrána í Ed.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, hefir verð á kornvöru hækkað geysilega. Það er líka vitað, að laun verkamanna, þeirra, sem lægstar tekjur hafa, hafa ekki hækkað. Það er því alveg sýnilegt, að með þessari verðbreyt. getur þetta fólk ekki einn sinni keypt nægilega mikið af kornvörutegundum, og eins og nú standa sakir, er skortur tilfinnanlegur meðal fátæka fólksins. Það er ekki útlit fyrir atvinnuaukningu á næstunni, meira að segja við afgreiðslu fjárl. er búizt við því, að vinna við ýmsar verklegar framkvæmdir verði minni en árið, sem leið.

Það hníga því öll rök að því, að þingið verði að gera það, sem hægt er til þess að minnka dýrtíðina, en ekki að auka hana, eins og farið er fram á með tollskránni. Aftur á móti er hér á Alþingi komið fram frv. um að auka lögregluna, sem mun ef til vill kosta stórfé, kannske milljónir króna. Nú veit maður ekki, hvað til stendur, en það má gera ráð fyrir, að varalög- reglan muni verða notuð út í yztu æsar.

Aðrar breyt., sem mestu skipta í brtt. okkar, eru þær, að verðtollur á ýmiskonar fatnaði, sokkum, vettlingum, innri og ytri fatnaði, verði lækkaður frá því, sem tollskráin gerir ráð fyrir, eða úr 50% í 20%. Hækkunin, sem tollskráin ákveður, kemur mjög tilfinnanlega niður á vinnandi fólki í landinu, og álítum við þess vegna nauðsynlegt að breyta þessu atriði. Ef ekki verður samþ. veruleg lækkun við þessa umr. samkv. okkar till., þá munum við þegar til 3. umr. kemur, flytja dagskrártill. um að fresta afgreiðslu málsins til næsta þings, en þangað til sé málið rannsakað að nýju af milliþn., með tilliti til þeirra breyt., sem orðið hafa á verðlagi síðan tollskráin var samin.