16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

22. mál, tollskrá

Jón Ívarsson:

Ég álít, að því beri að fagna, að fyrir þinginn liggur nú frv. til nýrrar tollskrár, fyrst og fremst vegna þess, að á síðustu árum hefir verið bætt tollum á tolla ofan, og fer naumast hjá því, að tollinnheimtan víða um land hafi verið í miklu ósamræmi, vegna þess ruglings, sem hinir margskonar tollar sköpuðu. — Þetta er, eins og öllum er ljóst, stórt og merkilegt mál og mjög þýðingarmikið, hvernig því reiðir af á þessu þingi. Hinsvegar er tími orðinn naumur til afgreiðslu þess. Þetta mál er jafnvel meira stórmál en sjálf fjárlögin, vegna þess að það grípur inn í allan innflutning til landsins.

Þess er varla að dyljast, að frv. hefir í för með sér miklar tollahækkanir, enda hefir millþn. sjálf, sem undirbjó frv., gert ráð fyrir því, jafnvel þótt miðað væri við verðiag fyrir stríð, hvað þá nú, með því verðlagi, sem orðið er, og þar sem sú regla hefir verið upp tekin að leggja cif-verð vöru til grundvallar tollútreikningi, í stað fob-verðs áður. Hér er því um hið mesta vandamál að ræða, sem menn þó ekki geta skotið sér undan.

Ég ætla ekki að ræða hér, hvernig vörum er skipt í tollflokka, en mér finnst það þó hart, ef nauðsynlegt er að hafa byggingarvörur hátt tollaðar. Við vitum, að okkar land er snautt af þessum efnum, og verðum við því að flytja byggingarefni til landsins frá öðrum löndum. Það er því harðleikið að þurfa að tolla sement og algengt timbur mjög hátt. Eins og tollskráin nú liggur fyrir, er ætlazt til, að vörumagnstollur af sementi nemi af 100 kg. 55 aurum og 8% verðtollur. Á timbri á að verða 10 aura vörumagnstollur á teningsfet og 8% verðtollur. Tollur á einni tunnu af sementi myndi með þessu móti verða allhár, eða 90 aur. til 1 kr. vörumagnstollur. Hitt er ekki gott að áætla, en gera má ráð fyrir, að tollurinn alls verði allt að 3 kr. á tunnu. Þetta þykir mér býsna há fjárhæð, þegar litið er á það, að timbrið er líka hátollað. Það má svara því, að núverandi tollur sé hár, en hingað til hefir tollurinn verið miðaður við fobverð, en ekki cif-verð. Nú þegar við tvöfalt verð vegna stríðsins bætist flutningskostnaður, sem taka á tillit til þegar tollur er reiknaður, þá er hér um mikla tollhækkun að ræða. —Um þetta atriði mun ég ekki hafa fleiri orð, en önnur atriði frv. vil ég minnast lítilsháttar á.

Það er þá fyrst í sambandi við cif-verðið. Þegar vörur eru fluttar inn í stórum , margar teg. undir í einu, þá er ekki fragtin sundurliðuð fyrir hverja vörutegund, heldur einn reikningur gerður fyrir öllu saman. En til þess að fá út hinn rétta grundvöll fyrir tollálagningu eftir þessu frv., þarf að ákveða flutningsgjald hverrar vörutegundar fyrir sig. Þetta verður að minni hyggju mjög mikið verk, og er það afleiðing þess, að cif- en ekki fob-verð er lagt til grundvallar. Annað er það, að ekki er ætlazt til, að raunveruleg flutningsgjöld, sem greidd eru á hverjum tíma, séu lögð til grundvallar við tollálagningu, heldur það flutningsgjald, sem almennt er talið gildandi. Ef eitthvert fyrirtæki kemst að sérstaklega hagkvæmum samningum um flutningsgjöld, þá fær það ekki að njóta þeirra við tollútreikninginn, heldur verður þá farið eftir almennum flutningsgjöldum. Þetta virðist mér vera galli á löggjöfinni, sem þurfi að taka til athugunar áður en málið fær fullnaðarafgreiðslu á þinginu. Það er algengt, að menn fá stundum mikinn afslátt af vörum, sem keyptar eru frá útlöndum. Getur þessi afsláttur numið jafnvel 50% af verði því, sem reikningar hljóða um eða meira jafnvel. Samkvæmt tollskránni á ekki að taka tillit til þessa afsláttar, heldur miða við brúttóverð á innkaupsreikningi. Með þessu er ekki miðað við hið raunverulega verð, þar sem ekki er leyft að taka tillit til afsláttarins. Þetta getur munað allmiklu þegar um verðháar vörur er að ræða. — Þá þykja mér það ennfremur gallar á þessari löggjöf, að innflytjendur skuli þurfa að afhenda tollyfirvöldum afrit eða samrit af innkaupsreikningum, — ekki aðeins meðan á tollútreikningi stendur, heldur alveg til eignar og umráða, ef svo mætti kalla, svo eiga tollyfirvöld að hafa aðgang að verzlunarbókum manna og bréfaviðskiftum milli seljanda og kaupanda vöru eftir geðþótta tollmanna. Ég get búizt við, að ýmsum verzlunum þyki bæði þessi atriði óaðgengileg, og mér finnst þau þannig vaxin, að full ástæða væri til þess, að n. athugaði þau nánar, enda eru um þau skiptar skoðanir. Enn er það í sambandi við flutningsgjöld varanna, að sumstaðar hagar svo til, að kaupa þarf dýran flutning á þeim milli hafna innanlands. Ég hefi ekki getað gert mér alveg ljóst, hvort tollskráin ætlast til, að þetta flutningsgjald verði einnig lagt til grundvallar þegar verðtollur er reiknaður, en þó skilst mér, að svo muni vera. Ef svo er, þá er þetta ákvæði afar óaðgengilegt. Fyrst þurfa þær hafnir, sem verr liggja við skipaleiðum, að greiða hærra flutningsgjald, og ekki nóg með það, heldur verður þetta aukaflutningsgjald til þess, að hærri verðtollur kemur á vöruna líka. Í 10. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Ef vara er send lengra en til fyrstu tollhafnar, er hægt hefði verið að afferma hana, má draga frá flutningsgjaldsauka þann og sendingarkostnað, sem sá framhaldsflutningur hefir valdið, ef gerð er fullnægjandi grein fyrir þeim kostnaðarauka.“ Eftir þessu er heimilt að taka tillit til aukafarmgjaldsins, en eigi skylt. Nú teldi ég æskilegra, að n. tæki þetta atriði til athugunar fyrir 3. umr., því að svo ósanngjarnt sem það kann að virðast að leggja cif-verð til grundvallar verðtollsálagningu, þá er þetta þó svo ósanngjarnt, að það má með engu móti standa í frv. eins og það verður endanlega afgr. frá Alþingi.

Vil ég þá ekki að þessu sinni þreyta d. á lengri umr.