16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

22. mál, tollskrá

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég vil benda á það í sambandi við tollskrárfrv., að það hljóta að stafa mikil vandræði af því að miða við cifverð í tollútreikningi. Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um flutningsgjaldið og kvartað undan því, að menn fengju ekki að njóta hagkvæmra „fragt“ samninga þegar tollur væri reiknaður, þá finnst mér ósanngjarnt, að stórverzlanir, sem leigja sjálfar skip mjög ódýrt, skuli þess vegna einnig eiga að greiða lægri toll. Í samkeppninni myndi þetta verða þannig, að aðstaða hinna smærri atvinnurekenda yrði ennþá erfiðari en áður. Auðvitað má segja, að þetta flýtti fyrir þeirri þróun, sem er í þjóðfélaginu, en engu að síður kemur það óréttlátt niður. Það hefir verið minnzt á farmgjald Eimskipafélagsins. Það farmgjald er ekki hægt að leggja til grundvallar, því að þeir, sem mest flytja með skipum félagsins, fá geysimikinn afslátt. Það verður alltaf óréttlátt að miða við cif-verð, hvort sem órétturinn kemur niður á stórum eða smáum. Það er því sjálfsagt að reikna með fobverðinu, eins og lagt hefir verið til af þm. Sósíalistafl. Þá myndu menn einnig sleppa við þá gífurlegu verðhækkun, sem leiðir af því að reikna með cif-verði.