18.04.1939
Neðri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Sigurður Kristjánsson:

Það eru nokkuð mörg ár síðan hafið var máls á þessum vélbátatryggingum. Upphaf þess máls er það, að við athugun á þeim verðmætum, sem liggja í útgerðinni, sem gerð var í sjútvn. fyrir 5–6 árum, kom það í ljós, að allur floti opinna vélbáta var ótryggður, að undanskildum örfáum bátum. Bankarnir tjáðu okkur þá, að verðmæti, sem næmi um 800 þús. kr., væri af þessum ástæðum óveðhæft. Við hv. þm. Vestm. og ég gengumst þá fyrir því að koma á framfæri þessum tryggingarmálum við þing og stjórn. Það voru þá samþ. l. um tryggingar opinna vélbáta. En þetta voru frjálsar tryggingar, og átti Fiskifélagið að gangast fyrir félagsstofnun í þeim tilgangi að gera þessi verðmæti veðhæf. Upp úr þessu varð svo það, að hér kom fram frv. um skyldutryggingu allra vélskipa, og voru þá opnu bátarnir teknir upp í það frv. En þegar til kom, settu félögin svo óvægileg skilyrði fyrir tryggingunum, að það var ómögulegt að ganga að þeim. Af þessum ástæðum hafa komið fram kröfur um að undanskilja þessa opnu báta skyldutryggingunni. Þeirra úthald er oft og tíðum miklu styttra en hinna stærri báta og því erfiðara fyrir þá að standa undir þessari tryggingu, því að þeir þurfa að greiða iðgjöld fyrir þann tíma, eða mikið af þeim tíma, sem þeir liggja á landi. Eins og hv. frsm. tók fram, þá höfum við orðið sammála um að leggja til, að orðið verði við þessum óskum. Hinsvegar fylgir sá böggull skammrifi frá flm. frv., að þeir vilja skylda tryggingarfélögin til að taka þessa báta í tryggingu, ef eigendur bátanna óska þess, með öðrum orðum, að eigendur bátanna hafa enga skyldu til að tryggja, en félögin hafa skyldu til að taka þá í tryggingu. Nú er það regla hjá þessum félögum að hafa iðgjöldin þau sömu fyrir öll skip sömu tegundar. Það má þess vegna búast við, ef félögin eru skyld til að taka bátana í tryggingu, en eigendur eru ekki skyldir til að tryggja þá, að svo fari, að þeir menn, sem eru knúðir til að tryggja báta sína vegna þess að lánsstofnanirnar heimta það, verði að borga óvægilega há tryggingariðgjöld. Ég vil, að þeir menn, sem mest öryggi vilja hafa og vilja tryggja báta sína, eigi fyrst og fremst aðgang að tryggingarfélögunum, en ég álít, að það muni verða torvelt, ef ekki útilokað, ef tryggingarfélögin eiga að vera skyld til að taka hvaða bátskrifli sem er í tryggingu. Maður, sem hefir mikið með tryggingar af þessu tagi að gera; hr. Finsen, hefir komið á fund sjútvn., og benti hann n. sérstaklega á þetta. Og ég er þeirrar skoðunar persónulega, að tryggingarmálunum yfirhöfuð sé ógreiði gerður með því að hafa ákvæði í l. um skyldutryggingar. Ég held, að það verði miklu heppilegra að hafa þetta eins og er í breytingartillögu minni á þskj. 167, að hafa bara heimild fyrir félögin að tryggja þessa báta.