16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

22. mál, tollskrá

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég gekk út frá því, að heimilt væri samkv. frv., að reikna eftir alm. flutningsgjaldi, hvort sem það væri hærra eða lægra en það, sem greitt hefði verið. En nú sé ég af því, sem hv. þm. Ísaf. segir, að ekki er öruggt, að ákvæði frv. verði skilin á þann veg, og vildi ég því alveg sérstaklega benda n. á að athuga málið með þetta í huga, og hvort ekki væri rétt að slá því föstu, að fjmrh. gæti ákveðið, að reikna skuli með almennu flutningsgjaldi, hvort sem hið raunverulega greidda gjald er lítilsháttar fyrir ofan eða neðan í einstökum tilfellum. Ég held, að þetta verði eina sanngjarna lausnin.

Menn finna að því hér, að sú regla var upp tekin að miða við cif-verð í stað fob-verðs. Ég á minn þátt í þessu, því að frv. þetta var undirbúið meðan ég var fjmrh. Þetta atriði var rætt mjög ýtarlega í n., og að vel athuguðu máli voru allir á einu máli um það, að þrátt fyrir það ranglæti, sem það hefir að sumu leyti í för með sér að reikna með cif-verði, þá sé það þó betra heldur en miða við fob-verð. Þegar miðað er við fob-verð, fer verðtollurinn raunverulega eftir því, hvar í heiminum varan er keypt, og hve mikill hluti verðs hennar er flutningskostnaður þegar hingað kemur, — hvort hún er keypt í upprunalandinu eða í landi, sem keypt hefir hráefnin og síðan unnið vöruna.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. Mín skoðun er sú, að komast megi hjá ósanngirni einmitt með því að miða við almenna farmgjaldið á hverjum tíma, þrátt fyrir alla farmgjaldssamninga.