22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

22. mál, tollskrá

Jón Ívarsson:

Herra forseti! Ég gat þess við 2 umr. þessa máls, að mér þætti vænt um það, að tollal. væru sameinuð og tekin upp þessi tollskrá. Áður voru þetta mörg l., en nú koma þau fram í einu lagi. Þetta hefir leitt til ósamræmis, sem hefir átt sér stað um tollgreiðslu. Hinsvegar er þess ekki að dyljast, að mér hrýs hugur við tollal. eins og þau koma fram í hinni nýju tollskrá. Ég óttast mjög, að hún hafi í för með sér mjög hækkandi tolla, og einkum eru sumir þeir tollar, sem hún gerir ráð fyrir á nauðsynjavöru, matvöru og byggingarefni, háir. Ef litið er á álit mþn. í skatta- og tollamálum, virðist svo sem mþn. hafi áætlað, að vörumagnstollurinn mundi verða ca. 6. millj. kr. og verðtollurinn 4½ millj. kr., sé miðað við það verð, sem var 1937. Nú hefir orðið mikil breyting um þetta; verð er nú orðið miklu hærra, og er sennilegt, að reikna megi með því, að verðlag hafi tvöfaldazt frá því 1937, og ætti því verðtollurinn, ef innflutningur væri hinn sami, að komast upp í 9 millj. kr. úr 4½ millj. kr. vörumagnstollurinn var áætlaður um 6 millj. kr. Það má vera, að eitthvað dragi úr honum vegna minnkandi innflutnings, en ef innflutningurinn héldist hinn sami, má gera ráð fyrir, að verðtollur og vörumagnstollur samanlagður komizt upp í 15 millj. kr. Þetta er geysileg hækkun frá því, sem hefir verið, og hlýtur að koma hart niður á fjölda manna í landinu. Ég hefi þess vegna borið fram brtt., sem snertir að nokkru leyti eina tegund af matvöru og byggingarefni.

Eins og hv. þm. munu hafa tekið eftir, þá er eina kornvaran, sem er undir vörumagnstollinum, hveiti, — engin önnur kornvara er skyld undir vörumagnstollinn. Hefi ég lagt til, að sá tollur sé afnuminn. Þetta er vitanlega allmikil upphæð yfir árið, ef hann er felldur þetta mikið niður frá því, sem n. áætlaði. En þegar á það er litið, að um nauðsynjavörur er að ræða fyrir allan almenning, virðist mér ekki ástæða til þess að setja vörumagnstoll frekar á þessa kornvöru heldur en aðrar, t. d. rúgmjöl.

Og þegar svo er orðið sem nú, að við verðum að beina okkar viðskiptum vestur um haf, er sennilegt, að hlutfallið milli innflutnings á rúgmjöli og hveiti breytist þannig, að hveitiinnflutningurinn aukist, en rúgmjölið minnki. Mér hefir því virzt ekki fjarri lagi að sleppa þessum vörumagnstolli, og reikna með verðtolli einum á hveitinu. — Nú sé ég, að n. hefir gert till. um að ganga til móts við mig að nokkru leyti. Hún leggur til í brtt., sem hún ber fram. að tollur af ómöluðu hveiti falli niður.

Þá eru það mínar till. viðvíkjandi byggingarefni. Þær eru í 2 liðum. Fyrst er brtt. um það, að á sement skuli lagður vörumagnstollur, sem nemur 60 aur. á 100 kg. Aftur hefir hv. fjhn. lagt fram brtt. um, að vörumagnstollurinn verði 55 aur. af 100 kg., og verðtollurinn 2%. Af því að n. sýnir þarna vilja á því að ganga til samkomulags, vil ég verða við þeirri ósk að taka þessa brtt. mína aftur, þar sem bilið hefir minnkað á milli till. minnar og till. nefndarinnar.

Þá er 5. liðurinn um timbur. Þar er lagt til í minni till., að vörumagnstollurinn verði 10 aur. á teningsfet, og er það óbreytt frá till. mþn. Mér er fullkomlega ljóst, að það skiptir miklu máli fyrir allan almenning á landinu, hvernig verðlag er á þessari vöru. Eins og við vitum, er byggingarefni sú vara, sem við erum til neyddir að flytja til landsins. Við framleiðum mikið af matvöru, en aftur á móti framleiðum við enga byggingarvöru, og er því sanngjarnt að hafa vægan toll á þessari vöru. Þess vegna vil ég vænta þess, að hv. d. fallist á mína till. um að lækka verðtoll á timbri eins og hér er farið fram á, úr 8% niður í 2%. Eins og brtt. ber með sér, er hér um að ræða borð, símastaura, girðingarstaura o. fl. Þetta eru þær tegundir af timbri, sem ómögulegt er að vera án og hlýtur að verða flutt inn, þó að verðlag hækki.

Ég vil vænta þess, að hv. dm. taki þessar till. með velvilja, og óska þess, að hún nái fram að ganga við þessa umr. málsins.

Þá er 6. liðurinn um það, að verðtollur skuli innheimtur með 20% frádrætti. Nú hefir fjhn. borið fram till., sem gengur í þá átt að koma til samkomulags við mína till., og vil ég þess vegna gjarnan taka 6. lið minnar till. aftur, þar sem ég hefi ekki von um, að hann verði samþ. Ég vænti þá hinsvegar, að þessi till. n. verði samþ. og að það verði gildandi ákvæði.

Ég vænti, að hæstv. forseti hafi tekið eftir því, að ég tek aftur 4. og 6. lið till. minnar, og koma þeir væntanlega ekki til atkv. Í stað þess vil ég mæla með till. fjhn. Hinsvegar óska ég eftir, að hinar till. komi til atkv. Þess er ekki að dyljast, að ef mínar till. verða samþ., myndu þær draga úr þeirri tollahækkun, sem í tollskránni felast eins og hún liggur fyrir. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í brtt., sem við hv. þm. Húnv. flytjum, þar sem hv. þm. hefir þegar gert þær að umtalsefni, og læt máli mínu lokið að þessu sinni.