16.12.1939
Efri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Við, sem erum í fjvn. og eigum sæti í þessari deild, höfum borið fram brtt. á þskj. 362 við 10. gr. Það hefir verið talað um nauðsynina, sem sé á því að breyta fyrirkomulagi þessara mála hér í Reykjavík. Ekki hefir verið nefnt, hvað breytingin kosti á ári. Og ég vil ekki gizka á neitt ákveðið; nógu verður það hátt, þó að maður gefi því ekki byr undir báða vængi, að það hljóti að verða dýrt. En þá finnst okkur rétt að athuga, hvort ekki geti eitthvað komið í staðinn til hagsmuna fyrir ríkissjóð.

Brtt. okkar fer fram á, að heimilað sé að kveðja þá embættismenn, sem frv. ræðir um, og fulltrúa þeirra til setudómarastarfa án annarar endurgreiðslu en útlagðs ferðakostnaðar, enda haldi þeir launum sínum meðan á setudómarastörfum þessum stendur. Þetta er hliðstætt við skyldur sýslumanna til setudómarastarfa án sérstakra launa — nema 6 kr. ferðakostnaður á dag. Engin gild ástæða er til að undanþiggja þessa embættismenn í Reykjavík öllum slíkum skyldum, eins og gert hefir verið. Það hefir alloft komið fyrir, að ráðuneytið hefir orðið að sæta afarkostum í samningum við þá um, að þeir tækju að sér setudómarastörf, sem ekki þótti öðrum treystandi til en reyndum dómurum. Hér er aðeins um heimild að ræða. Dómsmrh. hefir óbundnar hendur um að bæta þessum mönnum upp störf sín í setudómi, ef það vill. — Ég tel fara betur á því í mörgum málum, að ráðuneytið eigi vísan aðgang að æfðum mönnum án þess að greiða stórfé. Eftir undanfarinni reynslu gæti þetta orðið ekki svo lítill sparnaður. Það þýðir kannske ekki að berja höfðinu við steininn og tala hér um sparnað. En ég sé enga ástæðu til annars en að tryggja dómsmrn. aðstoð þessara hæfu manna. — Taka má fram, að ef ólöglærður maður verður lögreglustjóri, eins og talað er um, liggur í hlutarins eðli, að ekki verður hann skipaður setudómari.