27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

Frsm. (Bergur Jónsson):

Allshn. hefir athugað þetta frv., og leggur hún til, að það verði samþ. með 3 breyt., sem eru prentaðar með nál. hennar.

1. brtt. er um það, að setja inn í frv. veitingarskilyrði fyrir þau embætti, sem um er að ræða. Þó þótti rétt að veita heimild til þess að veita undanþágu frá dómaraskilyrðum að því er snertir lögreglustjóra, enda séu þá sett sérstök skilyrði fyrir veitingu þess embættis með konunglegri tilskipun. Þetta er gert með tilliti til þess, að í frv. er allmikið breytt um verksvið lögreglustjóra, og það minnkað mikið frá því, sem nú er. Hinsvegar taldi n., að hér væri um svo mikilsvert embætti að ræða, að óhjákvæmilegt væri að hafa það sem aðalreglu, að menn yrðu að fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru um venjuleg héraðsdómaraembætti.

2. brtt. er aðeins leiðrétting. Það var einu sinni borið fram í þinginu frv. um að löggilda Viðey sem verzlunarstað, en það var fellt. Viðey er því ekki verzlunarstaður.

8. brtt. er um að færa 10. gr. í sama horf og hún var í frv. upphaflega. N. telur, að ákvæðin, sem sett hafa verið inn í 10. gr., séu sízt til bóta. Það er hægt að taka þessa fulltrúa, sem hér um ræðir, inn í launalögin, ef þingið vill, en það þarf ekki að setja ákvæði um þetta inn í þetta frv. Það fé, sem veitt er í fjárl., kemur þá ranglega fram, þar sem þessum embættismönnum er veitt skrifstofufé og af því greiða þeir fulltrúum sínum.

Hvað það snertir, að þessir fulltrúar séu skyldir að taka að sér setudómarastörf, þá er ekki frekar ástæða til að binda þá í því efni en aðra embættismenn, sem fullnægja skilyrðunum til að vera setudómarar.

N. leggur því til, að frv. verði samþ. með þessum breyt.