18.04.1939
Neðri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

46. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Pétur Ottesen:

Ég skil í sjálfu sér ekki andstöðu hv. 6. þ. Reykv. gegn þessum ákvæðum um skyldutrygginguna, ef hún er ekki sprottin af þeirri ástæðu, að hann óttist. að verið sé að stofna tryggingarfélögunum í hættu. En eins og ég hefi tekið fram, kemur slíkt ekki til greina, að þeim stafi af þessu nokkur hætta. Hinsvegar gæti vel farið svo, ef þetta ákvæði væri ekki haft með, að tryggingarfélögin neituðu alveg að tryggja lélegri bátana. Það er enginn að tala um, að þau tryggi skip, sem ekki eru sjófær. Um slíkt gilda náttúrlega vissar reglur hjá félögunum, hvaða styrkleika skip þurfi að hafa til þess, að það sé tekið í tryggingu, og með hvaða kjörum það sé tryggt. En ég álít að það væri óheppilegt að eiga það algerlega undir tryggingarfélögunum hvort þau vildu tryggja viðkomandi bát. Slíkt getur orðið fjötur um fót útgerðarinnar, og það getur vel orðið til þess að hefta framtak manna til að koma sér upp vélbátum. Hitt er svo annað mál, að tryggingarfélögin ráða því vitanlega sjálf, með hvaða kjörum og skilyrðum þau tryggja.