27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það má segja, að þessar umr. séu komnar út fyrir efnið, þegar farið er að ræða um, hvort eigi að auglýsa eða ekki auglýsa lögreglustjóraembættið. Ég hefi í sjálfu sér ekki mikið um þetta að segja. Vil þó aðeins taka það fram, eins og ég raunar gerði áðan, að það er orðið lítið eftir af lögfræðiatriðum, sem tilheyra þessu embætti. Hvað snertir stjórn lögreglunnar, þá eru þau atriði afarfá í því sambandi, sem útheimta lögfræðimenntun. Auðvitað þurfa menn að þekkja lögreglusamþykktina og vita, að það er refsivert að stela. Þetta þurfa lögregluþjónarnir úti á götunni líka að vita, — og gera það líka og starfa í samræmi við það. Ef fyrir koma tilfelli, þegar vafamál er, hvort lögreglusamþykktin hefir verið brotin eða ekki, þá myndi hlutaðeigandi maður vitanlega verða kærður og síðan myndi sakadómari skera úr um sýknu eða sekt. Ég man eftir tveimur slíkum tilfellum. Maður vildi ekki viðurkenna brot sitt á lögreglusamþykktinni, svo að dómur var látinn ganga. Ef þurfti að leita á manni eða gera húsleit, þá mátti lögreglan ekki snerta við því. Það þurfti að koma til bæjarfógeta, eins og nú yrði komið til sakadómara, og biðja um leyfi samkvæmt þeim gögnum, sem lögreglan hafði í höndum. Síðan var kveðinn upp úrskurður, sem haldið var leyndum unz leit eða húsrannsókn hafði fram farið. Lögregluþjónarnir verða, ef þeir þurfa að gera meiri háttar rannsókn, að fá aðstoð sakadómara. Þannig er sáralítið orðið eftir af lögfræðistörfum hjá þessum embættismanni. Þess vegna veltur orðið miklu meira á ýmsu öðru en lögfræðimenntun, hvort maðurinn reynist nýtur í starfinu eða ekki. Ég mun því ekki ræða þetta mál frekar. Ég vænti þess, að menn fallist á þau rök, sem ég hefi fram borið. Hinsvegar skil ég afstöðu hv. síðasta ræðumanns, að lögfræðingar vilja halda til sinnar stéttar þeim störfum, sem þeir teljast færir um að gegna. En ég lít svo á, að þetta starf, eins og það nú er orðið, sé ekki fyrst og fremst fyrir lögfræðinga. Ég tel till. heldur til miska og vil heldur hafa þetta óbundið. Þó mun ég auðvitað láta það afskiptalaust.