29.12.1939
Neðri deild: 96. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

167. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég talaði hér nokkuð í gær um þetta mál og vakti m. a. eftirtekt á því, hvernig þessi orð, sem notuð eru í 2. gr. frv. um „blöð lýðræðisflokkanna“, mundu geta gefið tilefni til útlagningar á þeim alveg eftir geðþótta þeirra valdhafa, sem væru í hvert skipti. Og ég nefndi þess ýms dæmi, hvernig hægt væri fyrir valdhafa, sem beita vildu gerræði, að misbeita þessu ákvæði. Það leið heldur ekki á löngu áður en hað sýndi sig, að þessi viðvörun til hv. þm., líka þeirra, sem eru í öðrum flokkum en okkar sósíalista, mundi hafa við rök að styðjast. Í ræðu, sem haldin var hér í nóti sem leið, kom fram ákveðin skilgreining á því, hvernig þeir menu, sem völdin hafa í landinu að því er virðist og ráða meiri hluta þingsins, hugsa sér að skilgreina orð eins og þessi og nota sér slík orðatiltæki, sem hér eru sett fram, til þess að geta misnotað það vald, sem í útvarpinu felst. Hv. form. Framsfl., þm. S.-Þ., talaði hér í nótt í Sþ. mjög ákveðið og skilmerkilega um það, að það munaði nú bara 2 atkv., að kommúnistar væru í meiri hl. hér í þinginu í vissu máli og hann lýsti því mjög skilmerkilega og lifandi, hvernig það hefði verið gerð hér greinileg árás, innan þings og utan, til þess að afhenda frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar í hendur Háskóla Íslands, og ég veit ekki hvað og hvað, og hann nefndi þar sérstaklega hv. þm. N.-Ísf. og ég held hv. 11. landsk. og einhverja fleiri þm. Það leið þess vegna ekki á löngu, þangað til þessi maður, sem eins og kunnugt er, á aðalupptökin að „höggorminum“ og þessum parti af honum, sem nú liggur hér fyrir, gaf vísbendingu um það, hvernig þetta orðalag mundi verða notað. Því að þetta frv. er einmitt eitt af því, sem þessi hv. þm. hefir sérstaklega óskað eftir að fá samþ., til þess að geta komið ár sinni betur fyrir borð um það, að einoka fyrir sig og eina einkastefnu það mál, sem hann ræddi þá, sem áróðurstæki í þessu þjóðfélagi. Það er vitanlega öllum kunnugt, hvað til stendur og hefir staðað hér á Alþ. viðvíkjandi menntamálaráði. Og nú liggur hér fyrir önnur till., upprunnin frá sömu rótum, frá hv. þm. S.-Þ. Og hann gaf í nótt mjög eindregna skýringu á því, hvernig hann ætlar sér að túlka þetta orðalag frv., sem ég minntist á áðan, nefnil. „blöð lýðræðisfl.“ Ég vil nú biðja hv. þm. að athuga það, að þegar skilgreiningar á orðunum kommúnistar, lýðræði og öðru þess háttar, sem mikið tíðkast nú á dögum í tali manna, eru notaðar á samskonar hátt og hv. formaður Framsfl. gerði í nótt og gerir yfirleitt, og eins og Hitler hefir notað þær síðustu 6 ár, þá býst ég við, að ekki aðeins við sósíalistar, sem oft erum kallaðir kommúnistar, heldur og margir aðrir muni sjá, að þegar á að fara að samþ., að fréttastofa útvarpsins eigi sérstaklega að semja við blöð lýðræðisflokkanna, þá eigi það, eins og ég sýndi fram á í gær, að vera alveg undir geðþótta ríkisstj. komið. Og hún er vitanlega ekki alveg sjálfráð verka sinna, heldur eru það einhverjir aðrir, sem stjórna henni. Og þá held ég, að við getum búizt við, að menn eins og hv. þm. S.-Þ. geti fengið ríkisstj. til þess að koma sínum málum fram, samkvæmt skilgreiningu hv. þm. S.-Þ. á því, hvað eru lýðræðisfl. og ekki lýðræðisfl. og kommúnistar og annað slíkt. Þessi hv. þm. (JJ) þarf líklega ekki meira til þess að hafa áhrif á ríkisstj. en að segja við ráðh., t. d. atvmrh., að hann vilji koma á einhverri breyt., til þess að fá hann á sitt mál. Og hann mun ekki þurfa meira að hafa fyrir því við suma aðra hv. þm., til þess að fá sínum vilja framgengt. Við höfum fengið dæmi um þetta, sem við ættum að láta verða okkur til varnaðar.

Ég vil beina því til hv. þm., að þeir athugi málið mjög vel áður en þeir ganga að því að samþ. þetta. Það getur farið svo fyrr en varir, að það vopn, sem þeir hv. þm., sem telja sjálfa sig tilheyrandi því, sem þeir vilja kalla lýðræðisflokka, ætla að beita gegn sósíalistafl., snúist í höndunum á þeim og það verði notað gegn þeim og þeim stefnum, sem sérstaklega kenna sig nú við lýðræði. Það, hvernig geðþótti og gerræði er farið að grípa um sig, utan þings og innan, gefur okkur fullkomið tilefni til þess að vera á verði um að gefa ekki valdhöfunum annað eins vopn í hendur og það, sem hér liggur fyrir, ef frv. verður að l.