15.12.1939
Neðri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

150. mál, ríkisborgararéttur

*Frsm. (Bergur Jónsson) :

Ég vil leyfa mér að gera nokkrar aths. við ræðu hæstv. forsrh. Hann gekk nú alveg inn á þau rök, sem ég færði fram og viðurkenndi afstöðu okkar, að við vorum neyddir til þess að halda okkur að lögunum. Honum virðist samt, að í þessu tilfelli standi sérstaklega á. Hann minntist og á, að þarna væri um mann að ræða, sem er í þjónustu sýslufélags. Hann viðurkenndi það réttilega, að samkv. lögunum er einungis talað um ríkið og ríkisstofnanir. En ef við ætlum að færa fram þá skýringu, að það megi lögjafna fyrir sýslufélög, hreppsfélög, rafmagnsveitur o. s. frv., vil ég benda á, að það hefir aftur og aftur verið beðið um ríkisborgararétt af þeim ástæðum. Ég man eftir manni, sem vann við rafmagnsveitu Reykjavíkur og óskað var eftir, að fengi ríkisborgararétt, en fékk hann ekki, og býst ég við, að hv. allsherjarnefndarmenn muni eftir þessu. Við höfum orðið að halda okkur við lögin.

Ég get ekki tekið til greina, hvað stuttan tíma vantar upp á búsetu; það er alltaf hægt að teygja það, hvaða tími sé langur og hvaða tími stuttur. Hann minntist á, að þetta yrði aðeins undantekning frá aðalreglunni. En við verðum að líta svo á, að eins og sakir standa liggi ekki fyrir nægileg skilríki um þessi 3–4 ár áður en hann kom til rafveitu Blönduóss. Ég vil minna á, að einn velmetinn borgari hér í Reykjavík, sem aldrei hefir þurft á opinberum styrk að balda, sótti um ríkisborgararétt. Allshn. sá sér ekki annað fært en að senda umsókn hans aftur til skrifstofu bæjarins, af því að það vantaði vottorð um, að þessi velmetni borgari hefði ekki þegið sveitarstyrk, og ennfremur um það, að honum hefði ekki verið refsað, enda þótt við værum vissir um, að svo hefði ekki verið. Ég vil benda á þetta af því, að afleiðingar þess, að maður verður að halda sig við lögin, eru þær að eitt verður yfir alla að ganga.

Ég vil og minna á það. að allshn. hafa borizt mótmæli frá rafvirkjafélagi Reykjavíkur um, að þessum manni verði veittur ríkisborgararéttur. Náttúrlega mundum við ekki vera á móti því þess vegna, en ég vil benda á það, að svona mótmæli eru komin fram og ástæða til, ef farið er að draga fram óskir rafveitustjórnar Húnavatnssýslu og Blönduóss, að draga eins fram þær raddir, sem hafa komið fram um, að maðurinn eigi ekki að hafa atvinnu hér á landi. Auðvitað er hægt að veita honum ríkisborgararétt, þótt hann hafi ekki atvinnuréttindi. Þeir taka það fram, að hægt sé að fá færa fagmenn til þess að annast þetta starf. Ég skal ekki dæma um það. Það liggur ekki fyrir allshn. og er fremur ráðuneytisins að dæma slíkt. En að svo komnu máli sé ég ekki hægt að leggja með því, að þessi maður fái hér ríkisborgararétt, a. m. k. ekki fyrr en hann hefir fullnægt settum skilyrðum.