15.12.1939
Neðri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

150. mál, ríkisborgararéttur

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Eins og hv. d. sér, ber hér ekki mikið á milli. Ég er þakklátur n. fyrir það, að hún hefir staðið vel á verði um, að fullnægt sé þessum lögum um 10 ára skilyrðið. Það, sem hér ber á milli og hv. d. verður að gera upp við sig, það er, hvort þessi sérstaka undantekning, þegar ófriður ríkir og þeir álíta sig ekki geta fengið mann, sem geti farið með þessar vélar, og jafnvel ekki fengið mann, á að takast til greina. Þá er spurningin, hvort við eigum að halda svo strangt við þetta ákvæði, að maðurinn sé látinn fara, og við viljum taka á okkur þá áhættu, að skipa þeim að taka annan. Ég skal taka það fram, að ég vil ekki líta á þetta sem undantekningu frá 10 ára reglunni. Það, sem d. verður að gera upp við sig, er það, hvort hægt sé að gera þessa undantekningu án þess að það þurfi að gera undantekningu framvegis. Ég held, að það sé óhætt án þess að það skapi fordæmi. Lögin eru til fyrir þetta land, en ekki til þess að lögin séu regiur. Ef nauðsynlegt er fyrir okkar hagsmuni að víkja frá þeim, þá gerum við það, ekki sizt ef við gerum það án þess að brjóta niður regluna. Ég er á sömu skoðun og hv. þm. Barð. um það, að ekki sé hægt að lögjafna ákvæðið um 5 ára búsetu fyrir þá, sem vinna hjá ríkinu, og fyrir þá, sem vinna hjá stofnunum ríkisins. Ákvæðið er það skýrt, að ekki er hægt að lögjafna frá því, til þess að það sama eigi að gilda um bæjarfélögin. En þá er ekki hægt að neita því, að starfa rafveitunnar njóta hálfopinberar stofnanir, eins og t. d. kvennaskólinn á Blönduósi, sem mundi líða við það, ef eitthvað bæri út af með gang rafstöðvarinnar.

Mér finnst standa svo sérstaklega á hér, að ekki sé sköpuð nein regla um 10 árin, þótt þessi undantekning sé gerð, og þetta það eina, sem ber á milli, og þetta er það, sem hv. d. verður að gera upp við sig. Ég mundi ekki vilja gera þessa undantekningu, ef það væri að víkja frá 10 ára reglunni um búsetu. Þetta, sem hér ber á milli, er svo lítið, að ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar.