27.12.1939
Efri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

150. mál, ríkisborgararéttur

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er ekki í raun og veru hægt að bera fram neinar aths. við þetta nál. Það er fullkomlega í samræmi við þau l., sem hér voru samin vegna þess, að mönnum þótti oft of langt gengið, þegar útlendingum var veittur ríkisborgararéttur, er þeir höfðu dvalið hér 1 eða 2 ár. Því var sett sú regla, að menn yrðu að hafa dvalið hér 5 ár í þjónustu ríkisins, en ella 10 ár, áður en þeir fengju þennan rétt, en ekkert er tekið fram um dvalartíma þeirra manna, sem hér starfa í þjónustu hins opinbera. Í raun og veru er ekki hægt að skýra 1. svo, þótt það væri eðlilegt, að hið sama gilti fyrir þá menn, sem starfa hjá hinu opinbera, og það, sem tekið er fram í l. um starfsmenn ríkisins. En með þennan mann, sem hér er um að ræða, stendur svo á, að glögglega kemur fram, að l. verða ekki alltaf eins í framkvæmd eins og þau eru hugsuð. Þessi maður hefir verið hér 9ár, þar af 5 ár í þjónustu hins opinbera norður á Blönduósi, og stjórn rafveitunnar þar hefir sent mér bréf, sem ég ekki finn í augnablikinu, þar sem færð eru nokkuð mikil rök fyrir því, að þeim sé mjög umhugað um að halda þessum manni, og er það ástæðan fyrir því, að hv. Nd. hefir vikið frá hinum settu reglum. Ég lít þannig á, að það sé rétt hjá allshn., að það megi yfirleitt ekki víkja frá reglunni um 10 ára búsetu. En þessi maður verður búinn að vera hér á landi 10 ár í vor, þegar þessi l. ganga í gildi, ef frv. verður að l. Þess vegna er ákaflega mjótt mundangshófið í þessu máli. En ef þannig yrði litið á málið af n. og þm., að brotin væri 10 ára reglan að ástæðulausu með því að samþ. þetta frv., og gerð hér undantekning vegna þess, hve mikil nauðsyn er að hafa þennan mann við þetta starf, og svo litlu munar, að hann sé búinn að vera hér 10 ár, þá tel ég, að þetta sé ekkert hættulegt fordæmi. — Það þarf að breyta stöðinni þarna á Blönduósi í vor, og annar maður getur ekki gengið í það verk.

Þá bendir n. á það, að það vanti vottorð um dvalarstað þessa manns hér í 3 ár, og einnig um það, að hann hafi ekki fengið framfærslustyrk þessi ár, og ennfremur vanti hann hegningarvottorð.

Ég vil leggja til, að málinu verði frestað til morguns; ég er ekki vanur að telja mál hér á Alþingi, og að áður en þm. tækju afstöðu til málsins um það, hvort þessa undantekningu á að gera eða ekki, sem ég tel þó enga undantekningu frá meginreglu l., þá vil ég vita, hvort það kemur í ljós, að hægt sé að útvega honum vottorð þangað til, því ég get skilið, að n. vilji ekki, ef þessi vottorð fást viðvíkjandi þessum þremur árum, láta samþ. frv. fyrr en þau eru fengin. En það, sem vantar upp í þessi 10 ár, er sama sem ekki neitt. En ef þeir á Blönduósi geta ekki útvegað þessi vottorð fyrir morgundaginn, þá fer ég ekki fram á frekari frest.