28.12.1939
Efri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

150. mál, ríkisborgararéttur

*Frsm. (Magnús Gíslason) :

Þetta mál var tekið af dagskrá í gær og umr. frestað eftir beiðni hæstv. forsrh., með það fyrir augum, að fengin yrðu vottorð, sem vantaði þá, um dvöl Oskars Sövik hér á landi fyrir 3 fyrstu árin, sem hann dvaldi hér, 1930–1933. Nú rétt í þessu var mér að berast hegningarvottorð fyrir þennan mann frá borgarstjóra Reykjavíkur, þar sem vottað er, að hann hafi ekki sætt refsingu fyrir nokkurt brot í Reykjavík. Sömuleiðis fylgir þar með vottorð frá borgarstjóra um, að honum hafi ekki verið veittur framfærslustyrkur í Reykjavík. En í þessu vottorði stendur, að það verði ekki séð af manntali bæjarins, að þessi maður hafi verið búsettur eða hafi dvalið í Reykjavík hin síðari ár. Svo að ef hann hefir verið hér á landi þessi 3 ár, sem um er að ræða, þá hefir hann ekki verið þau ár í Reykjavík, og er óupplýst, hvar hann þá hefir dvalið, og er þá einsætt, að hann hefir ekki sætt ákærum eða refsingu hér á landi þessi ár, ef hann alls ekki hefir verið í landinu.

Þess vegna sé ég ekki, að að fullu sé bætt úr því um vottorð fyrir þennan mann, sem í gær var áfátt. Vottorð um dvöl hans allan tímann frá 1930 þurfa að vera fyrir hendi.

Auk þess sé ég ekki, að til sé hegningarvottorð fyrir hann frá Noregi fyrir þessi ár, en hann hefir á þeim farið tvisvar eða þrisvar þangað. Ennfremur hefir hann ekki dvalið þau 10 ár, sem löggjöfin tiltekur, að menn skuli hafa dvalið í landinu áður en þeir geti öðlazt ríkisborgararétt.

Þegar alls þessa er gætt, get ég ekki fallizt á, að þessum manni verði veittur ríkisborgararéttur að þessu sinni, og mun ég halda mér við þá brtt., sem allshn. hefir gert í málinu.