11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

85. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja

Pétur Ottesen:

Ég vil mjög taka undir það með hv. þm. V.-Húnv., að þakka þeirri n., sem hefir haft þetta mál til meðferðar. Frv. var borið fram á fyrri hluta þessa þings, og var meiningin, að það gengi þá fram. En svo varð ekki, því að sú brtt., sem hv. þm. V.-Húnv., hv. þm. Ísaf. og ég fluttum við frv., olli þá ágreiningi; annars hefði málið þá fengið afgreiðslu.

Ég get vel tekið undir það með hv. þm. V.-Húnv., að sjálfsagt sé að gera þá kröfu til þeirra fyrirtækja, sem á að veita stuðning og fríðindi, að þau stilli í hóf með greiðslur eins og þær, sem hér er um að ræða. En ég fyrir mitt leyti vil þó heldur draga þessa till. til baka en að láta till. valda miklum deilum og eiga kannske á hættu, að það hindri framgang frv., því að það er svo um bátaútveginn, að þau fríðindi, sem þarna eru veitt, hjálpa mjög mikið til að útvegurinn geti notið þeirra ákvæða, sem fólust í gengislögunum að því er snertir skattgreiðslu, og eru mjög réttmæt hlunnindi. Þess vegna er mjög mikilsvert fyrir bátaútveginn að fá ákvæði sem þessi í l. tekin, svo að sá ávinningur, sem gengisbreyt. hefir fært þeim með verðhækkun, sem fellur þeim í skaut, verði ekki aftur af þeim tekinn með skatti, því að ef þeir fá auknar tekjur, þegar ekkert kemur til frádráttar á fyrsta ári, þá mundi svo og svo mikið af þessum hagnaði fara beint í ríkissjóð sem skattur, og þá er ekki náð því marki, sem að er stefnt, að gera útgerðinni mögulegt að létta af sér þeim mikla skuldaþunga, sem á henni hvílir. Ég vil því, þó að ég sé sammála því, sem sagt hefir verið um þessa till., heldur falla frá að halda henni til streitu en stofna málinu í tvísýnu hennar vegna. Ég vil af þessum sökum leitast eftir því hjá hv. þm. V.-Húnv., hvort hann geti orðið mér sammála um að draga þessa till. til baka, og ég ætla, að hv. þm. Ísaf. mundi líka geta verið því samþykkur. En ef hv. þm. V.-Húnv. vill ekki ganga inn á þetta, þá verður till. að koma undir atkv.