13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

85. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég vil vekja athygli deildarinnar á því, að inn í frv. er komið ákvæði um, að enginn fastur starfsmaður, sem vinni við fyrirtæki, er koma undir þessi lög, megi hafa yfir 10 þús. kr. hámarkslaun. Þegar stóð á samningum um stjórnarsamvinnu í fyrra, var samskonar ákvæði sett í lögin um gengisbreytingu, en fellt niður aftur af því að samkomulag náðist ekki um það, og þar með samþ., að slíkt ákvæði skyldi ekki lögfest, enda mjög tilgangslítið og ekki skiljanlegt, hvað vakir fyrir þeim mönnum, sem halda fram þessu ákvæði. Ég vil vekja athygli á því, að ef þetta atriði verður lögfest, þá eru sviknir samningarnir um þjóðstjórnarmyndun, þótt í litlu sé. Og þótt ég í sjálfu sér telji einskis virði, hvort þetta atriði stendur í lögunum eða ekki, get ég ekki látið vera að krefjast þess, að samningurinn sé haldinn, því ef byrjað er að svíkja hann í smáu, má eins gera það í stóru. Óska ég, að nefndin, sem fær þetta mál til meðferðar, grennslist eftir því, hvort það er ekki rétt, sem ég hefi sagt um samninginn. Vil ég einnig sérstaklega vísa um þetta atriði til hæstv. forsrh., sem ég man mjög vel eftir, að var við þetta riðinn á sínum tíma. Að öðru leyti finnst mér frv. vera réttmætt. Það hefir nú þegar verið lögleitt, að stórútgerðarfyrirtæki njóti vissra ívilnana um skattgreiðslu undir vissum kringumstæðum, og ég sé enga ástæðu til að láta þau ein njóta þessara fríðinda, þar sem vitað er, að þörf smærri útgerðarfyrirtækjanna er engu minni í þessu efni. Ég er því meðmæltur, að frv. nái fram að ganga. Vil ég beina því til hæstv. forseta, hvort ekki væri rétt að vísa því til fjhn.