22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

165. mál, rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna

*Árni Jónsson:

Það kom fram hjá hv. þm. S.-Þ., að það kynnu að vera einhverjar illar hvatir bak við það, að ég fór fram á, að þessu máli yrði vísað til n. Það er þvert á móti. Og ég vildi í því sambandi benda hv. þm. S.-Þ. á það, að sú n., sem ég álit, að málið eigi að fara til, sé menntmn., en þar myndum við meiri hl., hv. þm. S.-Þ. og ég, og yrði þá þessu máll vísað til merkustu n. Alþ., eða næstmerkustu n., þar sem sami formaðurinn er fyrir báðum þessum n. Það, sem aðallega vakir fyrir mér, er það, að bæla niður þá gagnrýni gagnvart þeirri lítt þinglegu meðferð, sem frv. frá upphafi hefir fengið, og af því þessi hv. þm. hefir verið í broddi þeirra manna, sem hafa leitt höggorminn út úr þykkninu inn í Paradísina, þá finnst mér, að honum ætti að vera það áhugamál, að málin sættu hinni allra þinglegustu meðferð.

Við skulum láta eitt yfir þessi mál ganga og láta þau ganga til n. við skulum láta okkur koma vei saman, og þó að við getum ekki afgr. þau á morgun, þá vil ég benda hv. þm. á, að hér verður fundur á miðvikudaginn, og þegar við erum búnir að ganga frá þeim, er ég ekki neitt hræddur um, að við getum ekki afgr. þau á einum degi hér í d. Hv. Nd. ætti að geta afgr. þessi mál á stuttum tíma, þar sem við höfum oft fengið fjölda mála þeirrar d., sem við höfum orðið að afgr. í mesta skyndi.

Ég vil þess vegna halda mér við þá till., að láta þessi mál fá eins þinglega meðferð og hægt er.