11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Sjútvn. hefir, eins og sést á nál. á þskj. 384, talið betur fara á að umorða þetta frv., en hinsvegar munu till. ekki gera efnisbreyt. á því. Ég tel fyrir mitt leyti, að á engan hátt fari betur á, að brtt. n. verði samþ. Ég hefi borið það undir skrifstofustjóra Alþ., sem er manna kunnugastur í þessu efni og formfastastur. Hann hefir staðfest þetta álit mitt, að það fari a. m. k. ekki betur á því, að brtt. verði samþ. Legg ég þess vegna til, að þær verði felldar, en get til samkomulags samþ. síðustu brtt., af því að vel getur verið, að ekki sé verra, að fyrirsögn frv. verði talið breyt., en ekki viðauki við l. Ég held, að þess þurfi ekki, en ef n. finnst það viðfelldnara, þá er ég ekki á móti því. Hitt kann ég ekki við, að farið sé að breyta hverri einustu gr. frv. alveg að nauðsynjalausu.

Ég legg þess vegna til, að brtt. verði felldar, sem ég ítreka, að allir eru sammála um, að eru engar efnisbreyt.