14.12.1939
Efri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

112. mál, meðferð einkamála

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Ég skal vera stuttorður um þetta frv. Allshn., eða meiri hl. hennar, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og sjá má á þskj. 430, en einn af þremur nm., hv. 2. landsk. (SÁÓ), skrifaði undir nál. með fyrirvara og hefir nú lagt fram brtt. á þskj. 444.

Um efni frv. og orsakir þess vil ég fyrst og fremst vísa til grg. og skýrslu, sem ég gaf um það við 1. umr. Ég vil leggja áherzlu á, að það er komið fram til að leiðrétta misræmi í l. um meðferð einkamála frá 1936, þar sem tekinn er af lögfræðingum, sem starfað hafa að málfærslu áður en lögin gengu í gildi eða gegnt dómaraembættum, réttur til að starfa að málfærslu eftir 1. jan. 1940, et þeir hafa þá ekki lokið þeirri prófraun að flytja 4 prófmál fyrir héraðsdómi. Þetta ákvæði er í ósamræmi við alla hliðstæða löggjöf um atvinnuréttindi, þar sem um er að ræða rétt manna til að halda áfram starfi, er þeir hafa stundað, svo sem löggjöf um siglingar, lækningaleyfi o. s. frv. Nú eru margir lögfræðingar, sem hafa ekki lokið flutningi þessara 4 mála og eru því að missa réttindi sín, þeir munu vera um 25, bæði í Rvík og annarstaðar á landinu. Eftir ósk þeirra er frv. borið fram. Það er ekki nein skynsemi í því að gera strangari kröfur til málfærslumanna fyrir undirrétti en að þeir hafi lögfræðipróf og annaðhvort ljúki prófrauninni eða, eins og hér ræðir um, hafi minnst 3 ára starfsreynslu að baki. Það er ekki vit að gera til þeirra aðrar og strangari kröfur en t. d. skipstjóra eða lækna, sem halda rétti til sömu starfa og þeir stunduðu áður en lög voru sett um atvinnugreinar þeirra. Auk þess er í frv. gerð sú breyt., að lögfræðingar, sem skipaðir hafa verið í dómaraembætti eða skipa má í föst dómarasæti samkv. 32. gr. l. um meðferð einkamála, skuli undanþegnir prófrauninni. Það kemur nokkrum sinnum fyrir, að dómarar, sem látið hafa af störfum, hafa haft rokkra atvinnu af að flytja mál, eða þá gert það í greiðaskyni við vini og kunningja. Það er óviðkunnanlegt og næstum því broslegt, að reyndir og ráðsettir dómarar, jafnvel menn, sem setið hafa í hæstarétti, eða þá prófessorar í lögfræði, megi ekki taka að sér mál fyrir undirrétti nema ganga undir próf. Slíkar hömlur eru ekki aðeins ástæðulausar, heldur þvert ofan í alla skynsemi, þegar t. d. þess er gætt, að það eru dómararnir, sem eiga að gefa úrskurð um það, að prófraun lokinni, hvort lögfræðingur hafi náð því þroskastigi og þekkingar, sem þarf til málfærslu, þótt lögin, eins og þau eru, virðist ekki treysta dómurunum til að hafa náð því stigi. Og þessi varfærni laganna á að vera til öryggis almenningi í landinu.

Ég get ekki verið sammála brtt. hv. 2. landsk., því að hún breytir ekki því „principi“, sem ég vil breyta í lögunum, því ranglæti, sem fólgið er í hömlum þeim, er ég hefi lýst. Auk þess nær hún ekki til þeirra manna utan Reykjavíkur, sem ekki hafa lokið þessari prófraun og mundu nú missa réttindi sín.