14.12.1939
Efri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

112. mál, meðferð einkamála

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Ég ætla að taka það fram til að fyrirbyggja misskilning, að frv. fer alls ekki fram á að fella niður prófraunina. Auk þeirra dómara og reyndu lögfræðinga, sem barnalegt væri að heimta prófraun af, nær frv. aðeins til lögfræðinga, sem stundað hafa málflutning fyrir héraðsdómi sjálfstætt eða sem fulltrúar hæstaréttarmálaflutningsmanna minnst þrjú ár samfleytt fyrir 1. jan. 1937. Þessir menn höfðu réttinn áður en lögin gengu í gildi, og þeir eiga að halda honum. Annað fer frv. ekki fram á.

Hv. 2. landsk. sagði, að frv. þyrfti ekki að ná til manna utan Reykjavíkur, því að þar væri prófraun ekki heimtuð. En þá fengi enginn þeirra að flytja mál í Rvík eftir 1. jan. næstk. Það er ósanngjarnt, þar sem þeim hefir enginn kostur gefizt á því að ganga undir prófraun á Akureyri eða Siglufirði eða annarstaðar, þar sem þeir hafa dvalið og starfað. Um það, hve prófraunin hafi mikið gildi til öryggis fyrir almenning, er kannske gott eitt að segja, en ég hygg það sé enginn sérstakur vandi að standast raunina fyrir þann lögfræðing, sem á annað borð hefir fengið hæf prófmál. Þá mun hann að jafnaði geta fengið skírteini, sem gefur honum málfærsluréttindi. Hitt er ekki síður ósanngjarnt fyrir því, að setja lög um, að réttindi, sem menn hafa haft og í engu fyrirgert, skuli af þeim tekin. Um líkt leyti voru sett ný lög um siglingar. Þá höfðu sumir skipstjórar aðeins rétt til að stjórna skipum undir 60 smál. Síðan voru auknar þekkingarkröfur til skipstjórnarmanna, en 60 smál. hámarkið hækkað upp í 75 smál. Þá fengu þeir skipstjórar, sem réttinn höfðu áður, ekki aðeins að halda honum, heldur fengu hann aukinn, þannig, að et þeir gátu sýnt, að þeim hefði ekki hlekkzt á síðustu 5 ár, gátu þeir fengið réttindi til að fara með skip allt upp í 73 smál. stærð. Ég held, að hv. 2. landsk. hefði barizt móti því með hnúum og hnefum, ef þeir hefðu ekki mátt vera formenn á sínum skipum áfram, nema með því að taka fyrst nýtt próf. Hann hélt því fram, að rétturinn, sem frv. veitti fyrrv. dómurum, næði ekki nema til eins manns. Ég vona þá, að það verði ekki til mikils atvinnuspillis fyrir neinn, þótt það verði samþ.