14.12.1939
Efri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

112. mál, meðferð einkamála

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Réttindi skipstjóra, sem hv. frsm. var að bera saman við málfærslumennina, eru ekki sambærileg í þessu máli. Hér er ekki um námspróf að ræða, heldur að ákveðin reynsla sé fengin, ákveðin verkefni leyst af hendi á viðunandi hátt. Reynslan hefir gefið gömlum skipstjórum það, sem einmitt er ætlazt til, að prófraunin gefi lítt reyndum lögfræðingum, en engin trygging er fyrir, að óákveðin reynsla fyrir 1937 sé neitt sambærileg við reynslu skipstjóranna. Dæmið, sem hv. frsm. tók um þá, er óheppilegt fyrir hann, því að einmitt ákvæðum, sem hann vitnaði í, hefir nú verið breytt. Ég get ekki fallizt á, að hér sé hægt að tala um, að nokkur maður sé sviptur rétti, sem hann hefir haft. Menn geta áreiðanlega náð sér í nóg prófmál og ekki vorkennandi að standast prófið. ef þeir eru hæfir á annað borð. Í prófrauninni er þó nokkurt öryggi fyrir almenning. Sá frestur, sem ég tel sjálfsagt að veita, ætti að nægja þeim mönnum, sem er alvara að gera þetta að lífsstarfi sínu, þeim ætti að vera það í lófa lagið að ljúka þessu. Annars skal ég ekki vera að pexa við hv. frsm. um málið, bezt að atkvgr. skeri úr.