03.01.1940
Neðri deild: 98. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

112. mál, meðferð einkamála

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Samkv. þeirri brtt., sem hv. 7. landsk. ber hér fram, verður ekki tekið neitt tillit til þess, hvort menn hafa stundað málflutning fyrir héraðsdómi sjálfstætt eða sem fulltrúar málflutningsmanna fyrir 1. jan. 1937, áður en hin nýju l. um meðferð einkamála í héraði gengu í gildi, en samkv. 55. gr. þeirra l. er þeim gert að skyldu að taka héraðsdómslögmannspróf fyrir 1. jan. 1940. En samkv. brtt. frá hv. 7. landsk. er þeim gert að skyldu að hafa lokið því prófi innan næstu tveggja ára. Ég get ekki sagt, að hin langa ræða, sem hv. 7. landsk. hélt, hafi á neinn hátt sannfært mig. Ég var einn af þeim lögfræðingum, sem áttu þátt í að semja l. nr. 85 frá 23. júní 1936, um meðferð einkamála í héraði. En ég vil viðurkenna það, að okkur þeim þremur lögfræðingum, sem stóðum að samningu þessa lagafrv., sem Alþ. tók til meðferðar og samþ., hefir skotizt yfir eitt atriði. Þar var reynt að fylgja samskonar reglum, sem yfirleitt giltu í löggjöf, þar sem l. eru sett um einhver atvinnuréttindi í þjóðfélaginu, og ný skilyrði sett frá því, sem áður var. Það má heita undantekningarlaus regla, að þeir, sem áður hafa fengið að stunda þá atvinnu, sem um er að ræða, fái að halda atvinnuréttindum sínum án þess að taka próf eða fullnægja þeim skilyrðum, sem nýjum mönnum eru sett með l. Um þetta atriði vil ég vísa til grg. þessa frv., þar sem það er tekið fram, að þessu var þannig farið samkv. l. um iðju og iðnað, samkv. l. um lækningaleyfi og samkv. l. um atvinnu við siglingar, að þeir menn, sem próflaust höfðu haft atvinnuréttindi í þeim greinum, sem þar ræðir um, halda þeim áfram, enda þótt ný og þrengri skilyrði séu sett til að öðlast þau atvinnuréttindi samkv. hinum nýju l., er nú gilda. En hér var það ekki gert. Mér virðist vera full ástæða til að viðurkenna eina höfuðástæðu til þess, að meiri hl. allshn. hefir gefið samþykki sitt fyrir þessu frv. En jafnframt vil ég geta þess, að mér finnst það vera hrein fjarstæða, og ég verð að andmæla því að réttmætt sé, að þar sem þeir lögfræðingar eru taldir upp í 2. málsl. 1. gr. frv., sem hafa verið skipaðir í dómaraembætti, eða sem skipa má í föst dómarasæti, og til þess verða þeir að fullnægja mjög ströngum skilyrðum samkv. 32. gr. einkamálaréttarins, að það eigi að fara að krefjast sérstakrar prófraunar af þeim, áður en þeir fá leyfi til að flytja mál fyrir héraðsdómi. Hv. 7. landsk. kom með eitt atriði, sem lítil hæfa er fyrir, að menn kynnu að verða skipaðir í dómaraembætti, og væru þar e. t. v. aðeins eina viku, en samt ættu þeir að fá réttindi til að flytja mál próflaust fyrir héraðsdómi. Mér þætti gaman, ef hann gæti nefnt eitt dæmi um það. Það hefir oft komið fyrir, að menn hafa verið settir í dómaraembætti um lengri eða skemmri tíma, og sumir mjög stuttan tíma, en það er alger undantekning, ef menn hafa verið skipaðir í starf og gegni því ekki nokkuð lengi, svo framarlega sem dauða eða önnur sérstök atvik eigi ber að höndum. Það er varla nokkurt framtíðarstarf svo, að maður reyni ekki að hafa það með höndum nema örskamman tíma, hafi hann t. d. verið skipaður héraðsdómari. Ég held, að það dæmi, sem ég man eftir að maður hafi verið skemmst skipaður sýslumaður, hafi verið Einar Benediktsson skáld, og hann hafði verið yfirdómslögmaður áður. Hann hefir áreiðanlega sýnt fullkomna andlega yfirburði til þess að takast próflaust á hendur málflutning fyrir undirrétti. Það, sem mér virðist sérstaklega ástæða til að undrast yfir í málflutningi hv. 7. landsk. hér í d., er það, að hann skuli bera saman skilyrðin til þess að verða hæstaréttarmálaflutningsmaður og héraðsdómslögmaður, þar sem þessi hv. þm. er hæstaréttarmálaflutningsmaður sjálfur, og ég hefi enga ástæðu til annars en að halda, að hann sé mjög vel hæfur í sínu starfi. Ég skil ekki, hvers vegna hann, sem bæði hefir flutt mál fyrir undirrétti og hæstarétti, heldur, að ekki þurfi þar að gera meiri mun á en hann virðist gera í þessum umr. Þar er alveg gagnólíku saman að jafna. Það er full ástæða til að takmarka þann hóp lögfræðinga mjög mikið, sem hefir réttindi til að flytja mál fyrir hæstarétti, og binda þau réttindi við þá eina, sem eru sérstaklega hæfir til þess. Þetta ber í fyrsta lagi að gera til þess, að ekki hlaðist fleiri lögfræðingar á hæstarétt en svo, að þeir geti allir haft lífsuppeldi af því, og í öðru lagi vegna þess, að til hæstaréttar fara yfirleitt ekki önnur mál en þau, sem þarf að rekja allýtarlega og krefjast mikillar æfingar af málaflutningsmönnum. Ég get í stuttu máli sagt það, að þó að þeir menn, sem í frv. er lagt til að veita undanþágu, hafi annaðhvort stundað málflutning sjálfstætt eða í þjónustu hæstaréttarmálaflutningsmanna, hvort heldur er hjá hv. 7. landsk. eða öðrum, eða þá gegnt dómaraembættum, sé ég ekki, að það sé á neinn hátt hættulegt að veita þeim leyfi til að flytja mál fyrir undirrétti. Hitt atriðið er mjög skylt þessu, að þeim mönnum, sem oft og tíðum hafa kannske haft með höndum dómstörf í erfiðum málum og orðið að leiðbeina og hjálpa til við málflutning, verið dómarar, prófdómarar við þær prófraunir, sem um ræðir í 27. gr. l. um meðferð einkamála í héraði, þar sem svo er mælt fyrir, að menn þurfi að fara gegnum fjögra mála prófraun, áður en þeir fá að flytja mál fyrir undirrétti hér í Reykjavík eða annarstaðar, eða þá prófessorar Háskóla Íslands, sem hafa e. t. v. verið kennarar flestra eða allra þeirra lögfræðinga, sem þarna eiga að vera keppinautar, þeim verði veitt réttindi til að flytja mál fyrir undirrétti án sérstakrar prófraunar. Það eina, sem hægt væri að líta á í því sambandi, hvort slíkum mönnum, sem ég nú hefi talið, skuli veitt undanþága frá slíku prófi eða ekki, er það, hvort skipta skyldi ríkissjóð því gjaldi, sem hann fær fyrir löggildinguna. En mér finnst sú upphæð skipta mjög litlu máli, því að hún er aðeins 50–80 kr. fyrir hvern lögfræðing. Í öðru lagi er hér um mjög takmarkaðan hóp manna að ræða, því að þeir þurfa að hafa stundað málflutning ákveðinn tíma fyrir 1. jan. 1937, eða þá að hafa verið skipaðir í föst dómaraembætti, og fullnægja því mjög ströngum skilyrðum, sem gilda til þess að geta tekið að sér héraðsdómarastörf, eins og hv. 7. landsk. tók fram. Það er á engan hátt verið að vinna að því að afnema próf fyrir þá, sem ætla að verða héraðsdómslögmenn, þótt þetta frv. verði samþ., heldur eingöngu koma því til leiðar, að sömu reglur gildi fyrir þá, sem höfðu öðlazt réttindi til að flytja mál fyrir undirrétti áður en nýju l. um þetta etni gengu í gildi, eins og viðurkenndar eru um veitingu atvinnuréttinda á öðrum starfssviðum. Ég verð þess vegna fullkomlega að mæla á móti því, að þessi brtt. hv. 7. landsk. verði samþ.