05.01.1940
Neðri deild: 98. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

112. mál, meðferð einkamála

*Garðar Þorsteinsson:

Mér finnst, að hv. þm. Barð. komi nú fyrir hv. d. eins og iðrandi syndari. Hann segir, að ekkert sé upp úr því leggjandi, sem málaflutningsmenn segi, og þykir ólöglærðir menn vel færir til að vera málaflm. Hvers vegna sagði hann þetta ekki 1936? Það er þessi hv. þm., sem samdi þessi l. og setti í þau þetta ákveðna skilyrði um prófið. Ef það hefir verið réttmætt 1936, þá er það svo enn þann dag í dag. (BJ: Af hverju sá Alþingi það ekki?). Það hefir látið blekkjast af orðum hv. þm., en Alþingi getur ekki verið svo ósamkvæmt sjálfu sér, að það felli nú niður þá breyt., sem það hefir sjálft gert og skyldað þar með fjölda af mönnum til að gangast undir þessa prófraun. Það skiptir engu máli, þótt enginn hafi fallið við þetta próf, — þeim mun auðveldara er það fyrir þá ólöglærðu að inna það af hendi.

Ef við hæstv. félmrh. erum að gera þetta aðeins vegna hagsmuna málaflutningsmanna, þá mætti álíta, að þessi hv. þm., sem mundi koma undir ákvæði l., væri að hugsa um sjálfan sig, en mér dettur ekki í hug að ætla honum slíkt.