25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

129. mál, iðnaðarnám

*Flm. (Thor Thors) :

Ég vil leyfa mér að þakka hv. 5. þm. Reykv. fyrir andmæli hans gegn þessu frv., því þau sýna, að hér er gott mál á ferðinni.

Það er vitanlega eins og hver önnur firra hjá honum, að hér sé að ræða um takmörkun á félagsfrelsi manna, þó nemar megi ekki vera félagar í sveinafélagi. Það væri eins hægt að halda því fram, að það væri takmörkun á félagsfrelsi manna, þó almennur „proletari“ eins og hann gæti ekki verið félagi í félagi olíukaupmanna.

Það sjá allir menn, að leiðir þessara tveggja aðila, nema og sveina, fara ekki saman. Hv. þm. sagði, að hér væri verið að takmarka samtakarétt manna. Hann ætti að vita, að nemar gera sérstaka námssamninga við lærimeistara sína undir eftirliti iðnfulltrúa og lögreglustjóra, og þar eru þeirra kjör ákveðin allan tímann, sem þeir eru við nám, svo kjör sveinafélaga hafa ekki minnstu áhrif á kjör nemanna. Ef hv. þm. vildi hafa fyrir því að lesa yfir l. um iðnaðarnám, þá mundi hann sjá í 4. og 6. gr. l., að í námssamningunum eru kjör nemanna sérstaklega ákveðin samkv. samningi? frjálsra manna. Á meðan þeir eru nemar, þá kemur þeim ekkert við, hvaða kjör sveinarnir hafa í sínum félagsskap. Þeir eru búnir með frjálsum samningum að semja um sín kjör í 4 ár. Frv. miðar eingöngu að því, að þessir samningar milli nema og lærimeistara skuli fá að vera í fullu gildi og ótruflaðir af utanaðkomandi öflum.

Það hefir borið talsvert á því undanfarin ár, að sveinafélögin hafa reynt að ginna nemana inn í sinn félagsskap, með þá áhættu fyrir nemana að glata réttindum, sem þeir hafa öðlazt með samningum við lærimeistara sína. En samkv. 13. gr. iðnl. er lærimeistara heimilt að segja upp samningi við nema, ef hann brýtur hann í einhverjum atriðum. Það er ekki hægt að hugsa sér frekara brot á námssamningi en það, að nemi neiti að vinna með lærimeistara sínum. Í mörgum tilfellum hefir þetta orðið til þess, að námsferill þessara manna hefir verið slitinn, og hefir oft hlotizt mikið tjón af því.

Ég vil hiklaust halda því fram, að þetta frv. sé beinlínis til þess að vernda þessa ungu menn, svo þeir geti haldið áfram á þeirri braut, sem þeir hafa hugsað sér. Deilan um kaup þeirra og kjör kemur síðar, þegar þeir eru búnir að öðlast sín réttindi. Þá hafa þeir allar ástæður til að deila um það við þá, sem iðngreininni ráða. hvað kaup þeirra og kjör eigi að vera.

Ég vil svo mælast til þess, að hv. iðnn. athugi ekki aðeins þetta frv. heldur einnig, hvort ekki sé stefnt inn á varhugaverða braut með því að hver iðngrein á fætur annari hefir lokazt á undanförnum árum.