23.11.1939
Neðri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Finnur Jónsson:

Hv. frsm. taldi, að örðugt hefði verið að starfrækja útgerðarfélög á grundvelli samvinnulaganna, því að þau væru fyrst og fremst miðuð við verzlunarrekstur. Ég veit ekki, á hverju hann byggir þetta. Ég hefi stjórnað útgerðarfélagi, sem byggt var eftir þeim lögum, og ekki orðið var við vandkvæði á framkvæmdum laganna vegna. Annað mál er hitt, að útgerðarsamvinnufélög hafa verið stofnuð og starfrækt á krepputímum og aflaleysisárum, svo að þau hafa sízt farið varhluta af þeim vandræðum, sem útgerðarfyrirtæki hafa nú yfirleitt átt við að búa. Versti agnúinn á samvinnulögunum var hin ótakmarkaða samábyrgð. En nú hefir því ákvæði þeirra verið breytt. Og þá sé ég ekki nokkra erfiðleika á að reka samvinnuútgerð eftir þeim lögum. Hv. frsm. þótti það furðulegt, að ég skyldi ekki sjá agnúa á því, að reka slík félög með hlutafélagssniði, og minnti á, að þar væri atkvæðisréttur bundinn við hlutafjáreign. Nú sé ég hvergi tekið fram í þessu frv., að sami maður megi ekki fara með nema eitt atkv. Að vísu segir í 9. gr.: „Atkvæðisrétt á félagsfundum hafa allir meðlimir félagsins“. En ekkert er tekið fram um það, að hver þeirra megi ekki eiga nema einn hlut eða fara með nema eitt atkvæði. Það er því alrangt, ef hv. þm. vill halda því fram, að fjármagnið geti ekki ráðið í þessum félagsskap eins og í hlutafélögum. Af þessu er augljóst, að flm. og hv. meðflm. hans hefir algerlega skotizt yfir að taka fram, að enginn mætti eiga nema eitt atkv.

Hv. þm. hélt því fram í öðru orðinu, að lög um stéttarfélög og vinnudeilur gætu alls ekki náð til meðlima í þessum félögum, en í hinu orðinu hélt hann því fram, að þau lög væru í fullum heiðri höfð í frv. Ég sé ekki, hvernig þetta getur staðizt. Það ber vott um mikinn ókunnugleik, ef hann heldur, að þetta rekist ekki á.

Ég vil taka dæmi. Það er greinilegt, að ef margir sjómenn koma sér saman um svona útgerðarfélag, og ákveða lægri taxta heldur en gilti yfirleitt hjá öðrum sjómönnum, að aðrir gætu ekki haldið sömu töxtum og hefðu verið undanfarið. Af þessu ætti þm. að vera ljóst, hvort sem hv. þm. V.-Húnv. er það ljóst eða ekki, að frv. þetta miðar að því, ef það kæmi til framkvæmda, að afnema þann rétt, sem sjómenn hafa haft til þess að semja um kaup og kjör. Mér þykir leitt, að hv. þm. V.-Húnv. skuli vera svo lítt að sér í málum verkamanna og sjómanna, að hann skilji þetta.

Þá vil ég enn ítreka það, að flm. hafa sjálfir mjög rýrt gildi þessa frv. með því að nema úr því ákvæði, sem voru í eldri frv. um að þessi félög ættu að njóta forgangsréttar um lán úr fiskveiðasjóði. Hv. þm. V.-Húnv. gerði mér það tilboð að greiða atkv. með brtt. til að bæta úr þessu, ef ég kæmi fram með hana. Nú skal ég gera honum annað tilboð í staðinn. Ég skal bera fram brtt. um þetta og vera frv. meðmæltur, ef hann vill gangast inn á, að í 8. gr. komi ákvæði um, að á stöðum, sem slík félög starfa, skuli gilda fyrir sjómenn þau hlutaskipti, sem náðst hafa samningar um milli sjómanna og útgerðarmanna, eins og þau eru á hverjum stað og tíma. Ef hv. þm. V.-Húnv. sér sér ekki fært að ganga að þessu tilboði, mun ég halda mér við mína fyrri stefnu og vera á móti frv. Eins mun ég greiða atkv. á móti till., sem hann kynni að koma fram með um, að þessi félög nytu sérstaks forgangsréttar um lán úr fiskveiðasjóði, ef hitt ekki fylgdi með, vegna þess að ég álít, að þessi félög eigi ekki að hafa neinn forgangsrétt umfram önnur félög í þessum efnum eins og frv. er úr garði gert af hálfu flm.