23.11.1939
Neðri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Finnur Jónsson:

Út af þeim ummælum hv. þm. Barð., að ég muni ekki eftir afstöðu minni til gengislaganna, vil ég aðeins vekja athygli hans á því, að ég gat þess einmitt í minni fyrstu ræðu, að afstaða mín til þeirra laga hefði miðast við alþjóðarnauðsyn og mjög tímabundið ástand. En á hinn bóginn benti ég á, að engin ástæða væri til þess að taka réttinn til að semja um kaup og kjör af sjómönnunum með lögum, sem eiga að gilda um alveg óákveðinn tíma. Hv. þm. Barð. bað mig að benda sér á þau ákvæði í l. um stéttarfélög og vinnudeilur, sem ég hefði sérstaklega vitnað í. Ég hefi að vísu ekki l. hér við höndina, en ég þykist hinsvegar muna það rétt, að gr. um þetta efni sé á þá lund, að stéttarfélag sé réttur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna. Og það er alveg sama, hvaða skilning hv. þm. leggur í þetta frv.; ef veruleg þátttaka yrði í þessum félögum, þá hlyti mikill hluti sjómanna í stéttarfélögunum að koma þar til greina, og jafnframt yrðu sjómannafélögin svipt því að verða réttur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, þar sem í frv. er gert ráð fyrir að ákveða kaup og kjör sjómanna í hlutarútgerðarfélögum í sérstökum samningi, sem leggja á undir úrskurð ríkisstj., og ekki má breyta þeim nema með hennar samþykki.