28.12.1939
Efri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi ekki skilað nál. í þessu máli, af þeirri einföldu ástæðu, að mér var kunnugt um, að það var í raun og veru ekkert samkomulag um málið innan n. Auk þess átti ég þess tæplega von, að málið yrði hespað hér af á síðustu dögum þingsins, og þar með skyldi málinu vera lokið hér.

Ég get sennilega ekki talað hér sem meiri hl. eða minni hl. í n., þar sem mér gefst sennilega enginn kostur á að skila nál. En að því vildi ég vinna í dag, að skila áliti, ef ekki á að hespa málið af á þessum degi.

Áður en ég vík að frv. vildi ég geta þess, að fyrir þessari sömu n. lá nú frv. á þskj. 83, þ. e. a. s. það hefir tekið nokkrum breyt. í hv. Nd., um jöfnunarsjóð aflahluta. Og ég hefi ekki orðið þess var, að ráðstafanir hafi verið gerðar innan n. um að taka það mál til afgreiðslu. En að ég drep á þetta nú, er af þeirri ástæðu að ég tel hér nokkurn skyldleika á milli þess frv. og frv., sem hér er til umr. þannig að ég álít, að annarhvort ætti að afgreiða bæði þessi mál eða hvorugt þeirra. Vildi ég því, áður en þessari umr. lýkur koma með rökst. dagskrá í þá átt, að þessi mál bæði fái nú nokkru betri undirbúning og kannske mætti samræma þau í einhverri mynd. En til þess vinnst sennilega ekki tími á þessum fáu dögum, sem eftir eru til þingloka.

Um þetta frv. tel ég ekki ástæðu að tala langt mál. Ég gerði nokkra grein fyrir því við 1. umr. hér í hv. d. En sjónarmið hv. minni hl., sem skilað hefir nál. og mitt eru svo gerólík í þessum efnum, að það yrði náttúrlega ekki annað en pex eitt að fara að halda hér hrókaræður um málið. Grundvallarskoðanir okkar á því, hvernig sjómenn skuli vera launaðir, eru og hafa verið svo ólíkar. Og þetta sjónarmið, sem ég er andvígur, kemur svo glöggt fram í þessu frv., sem hér er um að ræða. Ég hefi haldið því fram, að með þessu frv. væri gerð tilraun til þess að lögfesta sérstakt ákveðið launafyrirkomulag. Það mætti alveg á sama hátt gera hér að l. á Alþ., að það skuli hreint og beint enginn maður vera ráðinn á skip, nema hann hefði eingöngu fast kaup eða fast kaup. og einhvern hluta af afla. En ég er ekki viss um, að verkalýðurinn yfirleitt teldi það heppilegt fyrir sig að binda það fastmælum með löggjöf, fyrir hvaða kjör hann vildi ráða sig um óákveðinn tíma.

Um hlutaráðningarfyrirkomulagið má náttúrlega tala langt mál. Og eins og oft hefir verið minnzt á hér, hefir hlutaráðningarfyrirkomulagið verið haft hér á landi um margar aldir, en vitanlega með allt öðrum hætti heldur en hér er gert ráð fyrir og nú gæti komið til greina. Áður fóru bændur og bændasynir til sjós til að afla nauðsynja til heimila sinna. Þeir þurftu ekki annað að leggja í kostnað en að leggja sér til föt og fæði. Þetta fyrirkomulag var talið sjálfsagt, meðan fiskveiðar voru reknar á opnum skipum viðast hvar um land allt. En með stækkun útvegsins, eftir að hér komu þilskip, og ég tala nú ekki um eftir að eimskipin komu til sögu sem fiskiskip, og með mótorskipaflotanum. hefir útgerðarfyrirkomulagið breytzt svo mjög og áhættan við útgerð orðið þeim mun meiri, svo að það hefir yfirleitt ekki verið talin sjálf sögð regla, að menn héldu hlutaskiptafyrirkomulaginu óskorað áfram með vaxandi útgerð, þó að ég játi hinsvegar, að til eru hlutaskipti víða um land við fiskveiðarnar á mótorskipum. Þau hlutaskipti eru með ýmsum hætti. Í Vestmannaeyjum má kalla það slík hlutaskipti, að þar hafa sjómenn vissan hundraðshluta af afla, en hafa ekkert með útgerðina að gera að öðru leyti, og leggur þá útgerðarmaðurinn fram skip, olíu, veiðarfæri o. s. frv.

Við suðurland og vesturland og ég hygg einnig við norðurland eru að vísu til hlutaskipti við fiskveiðar, sérstaklega á smærri skipum. Og undir mörgum kringumstæðum er það þá svo, að sá, sem á skipið, hefir í sinn hlut meira eða minna fyrir áhættunni af því að leggja það fram, sem útgerðin þarf með

Nú er alls ekki ætlazt til þess hér, að hafa sama fyrirkomulag um aflaskipti eins og tíðkazt hefir um slíkt, heldur er hér ákveðið, að ekki þurfi að vera nema 5 menn á einhverjum stað, sem óski eftir að stofna hlutarútgerðarfélag þar, til þess að slíkt félag megi stofna þar, sem þá nýtur fríðinda samkv. þessu frv. Svo þarf leyfi bæjar- eða sveitarstjórnar á viðkomandi stað til þess að þetta félag megi rísa upp. Svo í þriðja lagi, til þess að allar reglur viðvíkjandi þessari félagsstofnun séu vel uppfylltar, þarf ríkisstj.samþ. þetta félag. Þetta er flókið kerfi. En það á að ganga svo tryggilega frá þessu kerfi, að þær skoðanir og öfl, sem ríkja yfirleitt hjá stjórnum sveitar- eða bæjarfélaga og ríkisstj., skuli ráða, án tillits til þess, hvernig verkalýðurinn í landinu lítur á þetta mál. Því að það er sérstök stefna og viss vilji, sem á að stjórna hér öllu í útgerðinni. Og þá vitum við yfirleitt, hver skoðun það er. M. ö. o.: Áhættan og skaðinn, þegar hann verður, á að öllu leyti að leggjast á herðar þeirra manna, sem fara út á sjóinn til þess að bjarga sér. Og ef aflaleysi og annað slíkt kemur til greina, — hvað eiga þessir menn þá að hafa til að lifa af? Jú, þá á að flytja þá nauðungarflutningi á eitthvert annað landshorn til þess að vinna fyrir sér. Það er þessi stefna, sem hv. flm. þessa frv. beitir sér fyrir, og það kannske án þess að athuga, hvað í þessu frv. felst. Ég veit, að hann muni bera það fyrir sig sem varnir, að hér sé aðeins um heimildarlög að ræða og að enginn þurfi að fara inn á að taka upp þetta fyrirkomulag fremur en hann vilji. En þegar aflaleysi ríkir á einhverjum stað, er hægt að þvinga menn út í það, sem þeim er þvert um geð, til þess að skapa atvinnumöguleika. Slíkt hefir átt sér stað og á sér stað enn. Og þegar menn neyðast til að fara út í svona lagaðan félagsskap, geta menn svo ekki losað sig aftur, a. m. k. ekki fyrr en eftir 2 ár, eftir frv.

Ef tími hefði unnizt til, hefði mig langað að koma með ýmsar till. til breyt. á þessu skipulagi, sem ég er svo mótfallinn eins og raun ber vitni um, t. d. eins og það, að meiri hluti verkalýðsfélagsskaparins á hverjum stað segi til um það, hvort slík félög yrðu mynduð. Ef meiri hl. verkalýðsins á hverjum stað álítur þetta heppilegt, þá er það að vilja verkalýðsins á hverjum stað, að slíkt skuli gert. Um þetta liggur ekki fyrir nein brtt., en ég myndi sennilega reyna að koma henni að.

Þá er ráðningarfyrirkomulagið. Það er gert ráð fyrir því í 3. gr., að óheimilt sé að ráða fasta starfsmenn hjá félaginu nema þeir gerist félagsmenn, nema þá í forföllum. Ég hefi nú mína sorglegu sögu að segja um þetta fyrirkomulag. Ég þekki eitt svokallað samvinnufélag hér á landi, sem oft hefir þurft að grípa til manna, sem ekki voru beinir félagsmenn, en svo hafa verið skráðir ólöglegir félagsmenn til að geta komið þeim undir kjörin, sem félagið hefir haft. Þessir menn hafa ekki verið félagsmenn lengur enn þann tíma, sem vistráðningartíminn stóð. Þessir menn hafa svo ætlað að reyna að leita réttar síns á eftir, en þá voru þeir óviljandi búnir að afsala sér sínum rétti með því að hafa gerzt bráðabirgðafélagsmenn og fengu þar af leiðandi ekki meira en hinir eiginlegu félagsmenn. Reynslan sýnir, að það er hægt að fara í kringum öll l. í þessu efni. Ég kæri mig ekkert um að nefna nöfn í þessu sambandi, en ég get sagt hv. 2. þm. S.-M., að ég er hér ekki að fara með neinar skröksögur. Ég geri ráð fyrir, að reynslan yrði alveg sú sama hjá þessum hlutarútgerðarfélögum eins og þessu samvinnufélagi. viðvíkjandi föstu starfsmönnunum í landi er það að segja, að ég geri nú ekki ráð fyrir, að það geti orðið margir fastir starfsmenn í landi hjá félagi, sem gerir út t. d. einn bát, Það er yfirleitt illa séð hjá sjómönnum að þurfa að láta marga hluti „dauða“ til þeirra, sem í landi eru. Ég álít, að þetta sé fremur vanhugsað. Það er ekki byggt hér á neinni reynslu.

Þá kemur 4. gr. Hún gerir ráð fyrir, að hver einstakur maður skuli bera ábyrgð á 300 krónum. Þetta er að vísu ekki stór upphæð, en hún er nægilega stór fyrir menn, sem ekkert eiga. Eins og ég hefi áður bent á, þá geta þessir menn ekki losað sig við félagsskapinn fyrr en eftir 2 ár. Það er meira að segja svo strangt, að ef maðurinn drukknar, þá er dánarbú hans bundið við skuldbindingar félagsins í 2 ár.

Í 5. og 6. gr. er tekið upp gamla hlutaskiptafyrirkomulagið. Í 6. gr. er gert ráð fyrir, að 1% af óskiptum afla gangi í varasjóð. Við þessu er í sjálfu sér ekkert að segja og sjálfsagt ekki nema hollt að mynda varasjóði í svona félögum.

Þá kemur 7. gr. Hún gerir ráð fyrir stofnun tryggingarsjóðs, sem hafi það markmið að tryggja þeim, sem hjá félaginu vinna, lágmarkstekjur. Þessi gr. leggur mönnum þær skyldur á herðar í fyrsta lagi að taka 1% gjald af óskiptum afla og leggja í þennan sjóð, og svo það, að hreppsfélaginu er gert að skyldu að leggja jafnháa upphæð á móti. Ég get ímyndað mér, að það séu til minni hreppsfélög, sem vildu leggja út í þetta, en ég er ekki viss um, hvort bæjarfélögin vildu ganga inn á þessa braut. Ég benti á, að Reykjavíkurbær hefir gert nokkra tilraun til að stuðla að bátaútgerð hér í bæ, og reynslan er slík, að ég efast um, að bæinn langi að gera margar slíkar tilraunir.

Um aðrar gr. frv. er fátt eitt að segja; í þeim eru ýms ákvæði um, hvernig stjórnir félaganna skuli skipaðar, um endurskoðendur og fleiri ákvæði, sem nauðsynleg eru um öll félög. Það er út af fyrir sig ekki nema gott um það að segja, að slík félög séu mynduð, en þó verð ég að lita svo á, að það geti verið varhugavert að taka menn inn í svona félagsskap beinlínis af því, að þeir telja að með því geti þeir skapað sér atvinnu, sem ef til vill engin verður. Ég hefi áður bent á það, að það, sem á að gera í þessu, er að láta þetta vera algerlega frjálst. Vilji menn hafa hlutaskipti, á að leyfa þeim það. Vilji menn hinsvegar vera upp á fast kaup, þá á það að vera jafnleyfilegt.

Þar sem eftir er ein umr. og mér gefst sennilega tækifæri til að koma fram með brtt., þá get ég stytt mál mitt. Ég vildi ekki láta hjá líða við þessa umr., að fram kæmu mótmæli gegn stefnu þessa frv. og þeim agnúum, sem ég tel, að séu á því og valda því, að ég álít, að það eigi ekki að ganga fram. Ég mun síðar, ef tækifæri verður til, gera mínar brtt., en á þessu stigi málsins vil ég leggja til, að því verði vísað frá með rökst. dagskrá.