28.12.1939
Efri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég er að mörgu leyti hlynntur ýmsu af því, sem fram kemur í þessu frv., og hefði ekkert á móti því, að slíkt fyrirkomulag, sem þar kemur fram, væri reynt, en mér þykir viðurhlutamikið að setja um þetta allsherjarlöggjöf fyrir allt landið, því aðstæðurnar eru svo mismunandi eftir landshlutum. Ég minntist á það í n., að ég myndi geta fylgt frv., ef kaupstaðirnir yrðu teknir undan, en mér hefir skilizt bæði á frsm. minni hl., sem hefir skilað nál., og eins flm. frv. í Nd., að þeir vildu ekki hafa slíka breyt. Þess vegna hefi ég ekki komið með neinar brtt., en viðvíkjandi þessari skoðun minni vildi ég aðeins geta þess, að við höfum t. d. í Hafnarfirði haft samvinnuútgerð eins og hér er farið fram á að sett verði l. um, og sú útgerð hefir ekki borið sig. Það hefir meira að segja komið fyrir oftar en einu sinni, að þeir menn, sem hafa verið félagsmenn í þessu fyrirtæki, hafa orðið handbendi bæjarins beinlínis sakir þess, að þeir tóku þátt í þessu fyrirtæki. Það er svo með Reykjavík og Hafnarfjörð sérstaklega, að þessir bæir gæta komizt í talsverð vandræði út af þessu fyrirkomulagi. Það má auðvitað segja, að það þarf staðfestingu bæjarstjórnar fyrir svona félagsskap, en það myndi vera afarerfitt fyrir bæjarstjórnir þessara bæja, ef svona heimildarlög væru samþ. að beita sér gegn stofnun slíkra félaga. Hinsvegar hlýtur bæjarfélögunum að vera bundinn talsverður baggi, ef slík útgerð verður rekin í stórum stíl. Auk þess er afar hætt við, að þeir, sem yrðu til að stofna svona félög, yrðu þeir óduglegustu, sem ekki fengju skiprúm annarstaðar. En í smærri kauptúnum horfir þetta allt öðruvísi við. Ég get vel trúað, að þetta fyrirkomulag ætti þar framtið. Mér finnst það hefði átt að staðbinda þetta við þá staði, sem menn hefðu trú á, að þetta gæti heppnazt. Síðar mætti þá færa þetta fyrirkomulag út, ef vel þætti reynast.

Ég skal ekki fara út í einstakar gr. frv. Þetta er mín meginafstaða til málsins. Ég hefði helzt kosið, að málið hefði fengið betri undirbúning, sérstaklega að það hefði verið rætt í bæjarstjórnum kaupstaðanna og fengið þeirra álit um slíkt fyrirkomulag sem þetta. Mér finnst ekki liggja svo mjög á að afgr. þetta mál, að það þurfi endilega að verða að 1. á þessu þingi. Ég vildi láta athuga málið milli þinga og bera það síðan fram í þannig mynd, að fullkominn þingvilji væri fyrir hendi til að samþ. það.