28.12.1939
Efri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Frsm. 1. minni hl. (Ingvar Pálmason) :

Ég þarf ekki að svara hv. 2. landsk. miklu, því ég skal játa, að eftir að hafa hlustað á hans löngu ræðu, þá er ég jafnnær um hans skoðun á þessu máli, og mér virðist, að sama megi segja um hina rökst. dagskrá. Ég botnaði ekkert í ræðu hans, en það var sérstaklega það, sem hann byrjaði á að segja, sem ég vildi svara. Hann byrjaði á að segja, að honum hefði ekki gefizt kostur á að skila nál. Ég skil ekki, hvernig það hefir getað verið. Það er liðin full vika síðan ég skilaði nál., og það er venjulega talinn nægur tími til að átta sig á nál. Þá minntist hann á það, að fyrir n. hefði legið annað mál, sem væri skylt þessu og þyrfti að fylgja því. Það er að vísu rétt, að málið er skylt, en ég álít, að það hafi ákaflega litla þýðingu, að það mál fylgi þessu, — því hvaða þýðingu hefir að setja l. um hlutaverðlaunasjóð, ef engin hlutaskipti eiga sér stað? Það væri þess vegna eðlilegt, að frv. um hlutarútgerðarfélög gengi fyrst og svo kæmi hitt á eftir. Annars man ég ekki til, að hv. 2. landsk. hafi nokkurn tíma ymprað á því, að þetta frv. þyrfti að afgr., sem hann minntist á, svo það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að tala svona.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mikið frekara út í þetta. Hv. 2. landsk. lýsti því yfir, að hann hefði þekkt eitt samvinnufélag, er hefði farið svo hörmulega á hausinn, að þeir, sem að því stóðu, töpuðu allri sinni vinnu, og miklu fé meira að segja. Ég vil treysta því, að hann hafi hér farið með satt mál. En þetta lagaákvæði, sem hér ræðir um, á að setja til þess að fyrirbyggja, að slíkt geti átt sér stað. Þetta dæmi, sem hv. 2. landsk. tók, sýnir, að þörf er á því að setja reglur um það, á hvaða hátt sé heimilt að stofna svona félög. Þetta frv. ræðir um það, að tryggja fyrst og fremst, að ekki sé hægt að stofna samvinnufélög nema með samþykki hlutaðeigandi hlutafélags, og í öðru lagi má ekki heldur stofna samvinnufélög, nema ríkisstj. samþ. það. Þetta finnst mér vera öryggisráðstöfun, sem mér skilst, að hv. 2. landsk. ættu að vera mjög hugþekkar, þar eð þær eru gerðar til þess, að ekki endurtaki sig þetta hörmulega fyrirbæri, sem hann lýsti hér mjög átakanlega.

Hv. 2. landsk. taldi, að í þessu felist þvingunarástand. Ef nokkurt þvingunarástand felst í því, að banna að stofna samvinnufélög án þess að leyfi hlutaðeigandi hlutafélags komi til, get ég ekki annað séð en að það sé alveg réttmæt þvingun.

Hv. 2. landsk. sagði, að ákvæðin um sjóðstofnun væru góð og nauðsynleg, en þetta gæti orðið nokkuð þungur baggi fyrir hlutaðeigandi bæjarfélög. Svo sagðist hann í lok ræðu sinnar geta séð, að þessi sjóður yrði til nokkurs stuðnings. Hvernig er hægt að átta sig á þessari ræðu, þegar hver mótsögnin kemur eftir aðra? Hv. þm. endaði ræðu sína á því að segja, að allt ætti að vera frjálst. Hann vill gjarnan, að heimilað sé að stofna samvinnufélög, er fari á hausinn eins og hann lýsti, hér í Reykjavík eða nágrenni, en hann vill alls ekki, að settar verði skynsamlegar skorður við því, að slíkt eigi sér stað.

Ég hefi lítið svarað ræðu hv. 2. landsk. En að lokum vildi ég aðeins víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Hafnf. Hún var mjög hófleg og bar vott um það, sem ég vissi áður, að hann telur, að í raun og veru sé þörf á að hlynna að þeirri hugmynd, sem í þessu frv. felst. En hann óttast, að það sé allt of viðurhlutamikið. Hann játar, að gott sé, að þessi félög nái yfir landið, en hann heldur, að þetta geti orðið mjög hættulegt fyrir bæina Reykjavík og Hafnarfjörð. Sú skoðun hlýtur að vera byggð á misskilningi, vegna þess að í frv. er það skýrt tekið fram, að ekki sé hægt að stofna samvinnufélag nema viðkomandi bæjarstjórn samþ. það, og af því leiðir, að ekki getur verið um neina hættu að ræða. nema viðkomandi bæjarfélag stofni sér sjálft í hættu.

Í öðru lagi er það byggt á misskilningi hjá hv. þm. Hafnf., að þetta sé ákaflega mikil hætta fyrir bæjarfélögin fjárhagslega. Hann sagði m. a. á þessa leið, en það hlýtur að vera byggt á misskilningi: „Ef allt færi á hausinn með stórtapi, þá yrðu bæjarfélögin að borga brúsann.“ Hv. þm. hlýtur að vera ljóst, að þetta er misskilningur. Það, sem bæjarfélögin eiga að leggja fram til sjóðstofnunar, er 1% á móti aflaupphæð fyrirtækisins, en rekstur fyrirtækisins og afkoma er bæjarfélaginu alveg óviðkomandi. Þess vegna er ekki um mikla fjárhagslega hættu að ræða. Ég gat áðan um, að í þessu frv. er svo frá gengið um þessi félög, ef illa fer, að þá á bæjarsjóður að vísu ekki að fá aftur þessi sjóðstillög, sem hann hefir innt af hendi á móti 1% af afla fyrirtækisins. Þessa áhætta er allt og sumt, en meira ekki. Ég verð að segja það, að þó að þarna kunni að vera einhver áhætta fyrir bæjarstjórnir, að ef viðkomandi bæjarstj. álítur, að þeir, sem að því fyrirtæki standa, séu færir um að reka slíkan félagsskap, er sú áhætta ekki mjög mikil.

Ég hygg, að það sé rétt, sem fjöldamargir halda fram, að bæði hér í Reykjavík og öðrum stærri bæjum landsins sé fjöldi fullvinnandi manna, sem ekkert r,afa að gera. Ég hefi heyrt, — að vísu getur verið að það sé orðum aukið — að þess séu ekki fá dæmi, að slíkir menn þurfi að lifa á annara fé, eða m. ö. o. framlagi bæjarsjóðs. Ég veit ekki, hve háar upphæðir þar er um að ræða, en ég gæti hugsað, að þær væru ekki miklu lægri en þótt lögfest yrði þetta 1%, sem frv. fer fram á, að bæjarsjóður leggi í móti aflahluta slíkra fyrirtækja. Ég held því, að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. Hafnf., að varasamt sé að samþ. þetta frv., því að töp eða áhætta fyrir bæjarfélögin ætti hér að vera alveg útilokuð, þar sem viðkomandi bæjarstjórnum er alveg í sjálfsvald sett, hvort þær samþ., að slík fyrirtæki verði stofnuð, eða ekki, og enda þótt svo færi, að bæjarstjórn samþ. það og einhver óhöpp kæmu fyrir, þá gæti ekki verið mikið fé í hættu fyrir bæjarfélagið. þó að fyrirtækið misheppnaðist.

Ég held, að lítill ávinningur verði að því að vísa þessu máli til hæstv. ríkisstj. Að vísu er það kannske mildari aðferð til að gera málið að engu en að fella það með atkvgr. Mér þykir dálítið undarlegt, að afstaða hv. þm. hér í Ed. til þessa máls sé þannig, að þeir telji, að einhver hætta sé á ferðum, ef þetta frv. verður samþ., þar sem svo var ástatt í hv. Nd., að sú d. var nálega óskipt með þessu frv. — Það skal þó tekið fram, að að vísu greiddu kommúnistar og einn eða tveir menn úr þingflokki jafnaðarmanna, sem að líkindum standa næst kommúnistum, atkv. gegn þessu frv. í hv. Nd.

Það, sem fyrir mér vakti með því að láta þetta mál koma fram hér í hv. Ed., var, að ég vildi fá úr því skorið, hvort afstaða hv. dm. væri allt önnur til þess í Ed. en í Nd., því að þar hafði það fylgi langsamlega meiri hl. dm. — Ég mun svo ekki taka aftur til máls um þetta frv., hvort sem aðrir aðilar þykjast hafa ástæðu til þess, þá mun ég láta skeika að sköpuðu, hvernig fer um þetta frv.