28.12.1939
Efri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég ætla aðeins að segja örfá orð, ég skal ekki þreyta umr. úr því sem komið er. Hv. 2. þm. S.-M. talaði um, að hann sæi ekki, hvaða hættu væri um að ræða, þó að þetta frv. yrði samþ. Hann skilur málið þannig, en ég varð ekki var við rök í ræðu hans, er réttlætt gætu þetta frv., umfram það, sem hann hefir áður gert. Það kenndi nokkurs misskilnings hjá honum; ég hefi alls ekki ávitað hann fyrir, að þetta frv. kæmi fram, enda er fullkomlega þinglegt að bera það upp nú hér í hv. Ed., því að það er orðinn svo langur tími síðan hv. 2. þm. S.-M. skilaði nál. Ég leit svo á, að málið myndi sennilega koma hér fram, en þar sem jafnmikill ágreiningur var í sjútvn., sem hafði það til meðferðar, hafði ég ekki búizt við, að það yrði afgr. (IngP: Ég átti enga sök á því). Það var misskilningur, ég var ekki að ávíta hv. 2. þm. S.-M. fyrir meðferð þessa máls. Um hitt málið er það líka rétt hermt, að það kom hingað til sjútvn. hinn 19. des., en það mál hefir ekki verið tekið fyrir í n. Ég lít svo á, að nauðsýnlegt sé, að bæði þessi mál verði athuguð. Ég vil taka undir með hv. þm. Hafnf. um, að þessu máli eigi að fresta. Ég álít rétt, að leitað væri umsagnar hreppstjórna, verklýðsfélaga og bæjarstjórna um það, hvort þær vilji, að lögfesting fari fram á þessu atriði.

Ég vil taka það fram um frv. hv. 6. þm. Reykv. um jöfnunarsjóð aflahluta, að ég tel, að í því væri fólgið töluvert öryggi fyrir alla þá, sem þann atvinnuveg stunda. Um afgreiðslu þessa frv. um hlutarútgerðarfélög er það að segja, að það hefir nú legið fyrir þrem eða fjórum þingum og aldrei fengið byr í hv. Nd., en nú fékk það þá meðferð í 1d., að það var samþ. af einhverri miskunnsemi gegn andmælum minna flokksmanna.