02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Frsm. 1. minni hl. (Ingvar Pálmason) :

Það mætti náttúrlega margt um þessar brtt. hv. 2. landsk. segja, en ég sé enga ástæðu til þess sérstaklega. Það er í fyrsta lagi um þær að segja, að þær eru allar meira og minna til skemmdar á frv., að vísu misjafnlega mikið. Sumar af þeim eru sennilega sprottnar af vanþekkingu, en aðrar af yfirlögðu ráði í yfirboðsskyni. Þetta er og ekki óeðlilegt, þar sem að brtt. stendur sá hluti hv. d., sem vill málið feigt. Ég skal aðeins minnast á örfáar af brtt.

1. brtt. gerir ráð fyrir, að minnst 10 menn geti stofnað hlutarútgerðarfélag, í staðinn fyrir 5 í frv. Nú er það vitað, að mikill fjöldi báta er með færri manna áhöfn en 10 mönnum, og það er ekki sízt fyrir þessa báta, sem löggjöfin er sett. Þessi brtt. hlýtur því að vera borin fram af vanþekkingu, eða þá af einhverjum verri hvötum, sem ég ætla ekki að sé.

Viðvíkjandi b-liðnum er það að segja, að það nær engri átt, að verkalýðsfélögin ráði því, hvort svona félög eru stofnuð eða ekki. Það er fjarstæða ein. Og svo er náttúrlega um flestar till.

Ég skal geta þess út af 3. brtt., að mér þykir hún út af fyrir sig ekkert ósanngjörn, en af því að hún er borin fram af sama hug og hinar till., þá verður hún að sæta sömu meðferð og þær.

Ég ætla ekki að rekja brtt. sérstaklega, en vildi að lokum minnast á 7. brtt. Ég verð að segja, að ég hefi hálfgerða skömm á þessari brtt. Hún er sama kyns og oft verður vart við. Þessir menn vilja svo sem þessum félagsskap allt það bezta. Ég verð að segja það, að ég hefi miklu meiri trú á þessum félagsskap en svo, að ég vilji ljá þessari till. fylgi. Ég hefi þá trú, að hann eigi að verða þess megnugur að greiða sín gjöld, eins og aðrir. Ég ætla svo að láta þetta nægja. Ég gæti tekið hverja brtt. fyrir sig og hrakið hana, en ég álit þess ekki þurfa. Ég legg eindregið gegn því, að nokkur af þessum brtt. verði samþ.