03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Finnur Jónsson:

Ég vildi fara nokkrum orðum mótmæli hv. þm. V.-Húnv. Ég get sagt um þau, að þau eru byggð á miklum misskilningi, og þá einkum þeim misskilningi, að hann virðist ekki skilja — því ég vil ekki ætla honum, að hann geri það vitandi vits — að hann er hér að koma með lagafrv., sem gengur í bág við réttindi, sem þegar hafa verið samþ. til handa sjómannafélögum.

Hv. þm. sagði, að sjómenn eigi ekki að vera að semja við sjálfa sig, þar sem þeir eigi allir í félaginu og ætlazt er til, að þeir séu allir eigendur. Ég tók nokkur dæmi af þessu við fyrri umr. hér í hv. d. og benti m. a. á, að ef slík félög verða stofnuð, við skulum segja á skipum, þar sem 10 önnur skip eru fyrir í verstöð, og við skulum segja, að áhafnirnar á þessum 5 skipum setji sér taxta og setji sjálfum sér kjör, sem eru öll önnur og ef til vill miklu lægri en gilda á öðrum skipum í verstöðinni, þá væri vitanlega um leið búið að brjóta niður þann sjómannafélagsskap, sem starfar í þeirri verstöð. Við skulum segja, að á þessum 5 skipum starfi 60 manns, sem ekki er ólíklegt. Hv. þm. V.-Húnv. segir, að þessir 60 menn séu allir eigendur og þurfi ekki að vera að semja við sjálfa sig um kaup og kjör. Við skulum segja, að þessir menn eigi allir jafna hluti í félögunum, sem stendur þó hvergi í þessu frv., en þá á enginn þeirra meira en 1/60 hlut í þessum félögum. Hvernig getur nú hv. þm. V.-Húnv. sagt, að þessir menn séu að semja við sjálfa sig, þar sem enginn þeirra getur sagt til um sín kjör nema að 1/60? Hv. þm. segir, að þeir eigi enga hluti í þessum félögum. Meinar hann þá, að þessi félög séu sameign á svipaðan hátt og samvinnufélögin. Ef hann meinar það, þá er hann enn betur búinn að sanna það, sem ég hefi haldið fram í þessu máli. Það er vitanlegt, að þó meðlimir samvinnufélaganna vinni hjá sinn félagi, hvort heldur er sem sjómenn eða verkamenn, þá gera þeir eigi að síður samninga við samvinnufélögin í gegnum sín verkamanna- eða sjómannasamtök. Ef það er líka meining hv. þm. V.-Húnv., að þarna sé um að ræða samskonar atkvæðisrétt og í samvinnufélögunum, þá er hann enn betur en áður búinn að sanna mitt mál um það, að full þörf sé á, að þarna sé farið eftir venjum verkamanna- og sjómannafélaga um kaup og kjör. Ég hefði gaman af, ef hv. þm. gæti bent mér á einhvern stað á landinu, þar sem verkamenn, sem vinna hjá samvinnufélagi, telja sér ekki jafnframt nauðsynlegt að vera í verkamannafélagi á staðnum til þess að fá samninga um kaup og kjör gegnum það hjá því sama samvinnufélagi, sem þeir eru í.

Með því móti, að halda því fram, að eign í þessum félagsskap eigi að vera nákvæmlega sú sama og hjá samvinnufélögum, þá er hv. þm. V.-Húnv. búinn að sanna betur en hann hefir gert áður, að það er full þörf á að breyta þeim ákvæðum, sem ég hefi lagt til, að breytt verði, til þess að frv. komi ekki í bág við nýgefnar yfirlýsingar 3 ráðh. úr þeirri stj., sem nú fer með völd.

Það myndi þykja einkennilegt í samvinnufélögunum, ef bæjar- eða sveitarstjórn eða ríkisstj. ætti að ákveði mönnum þar lágmarkstekjur. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. V.-Húnv. myndi ekki þykja það sérlega góð breyt. á samvinnul., ef komið væri með till. um það, að hreppsstjórn eða ríkisstj. skyldi ákveða bændum í samvinnufélögunum lágmarksverð fyrir þeirra afurðir, eins og hv. þm. gerir ráð fyrir að þessu leyti í frv. sinu, að gert verði, að ríkisstj. eða bæjarstjórn ákveði tekjur verkamanna og sjómanna, sem vinna í þessum félögum.

Um atkvæðaréttinn þarf ég ekki að fjölyrða. Hv. þm. sagði, að það væri hvergi í gr., að einn maður mætti fara með mörg atkv. Það stendur ekki heldur, að einn maður megi ekki fara með fleiri en eitt atkv. Meðan það er ekki, þá er full þörf á að setja það í gr., enda ætti hv. þm. ekki að vera það á móti skapi, þar sem hann heldur því fram, að atkvæðisrétturinn sé bundinn við persónu, en ekki eign í félögunum.