22.11.1939
Efri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

118. mál, framfærslulög

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og getið er um í grg. þessa frv., þá er það flutt eftir beiðni minni og þannig til komið, að skipuð var 3 manna n. 28. sept. síðastl. til þess að athuga framfærslulögin. Þar var lögð áherzla á, á hvern hátt bezt væri að létta hinum mikla framfærsluþunga af sveitar- og bæjarfélögum landsins. Segja má, að þau séu flest að því komin. og sum alveg, að sligast undir hinum mikla framfærsluþunga. Í nefnd þessa voru skipaðir Bjarni Benediktsson prófessor, Sverrir Gíslason oddviti og Jón Brynjólfsson skrifstofustjóri. N. starfaði í samráði við eftirlitsmann sveitarstjórnarmálefna, Jónas Guðmundsson, og auk þess hafði hún sér til ráðuneytis 2 menn aðra, sinn frá hvorum bænum, Reykjavík og Hafnarfirði, þá Ólaf Sveinbjörnsson fulltrúa framfærslumála í Reykjavík og Friðjón Skarphéðinsson bæjarstjóra í Hafnarfirði. Þessari n. var sérstaklega falið að athuga þau frv., sem samin voru síðastl. vetur af nokkrum oddvitum og fulltrúum bæjarstjórna, sem skipaðir voru til þess að athuga svipuð mál. En fá af þeim frv., sem þessir menn hafa samið, hafa verið lögð fyrir Alþingi, heldur send n. til athugunar. og þær ekki flutt þau. Nefnd þessi hélt fundi á hverjum degi í langan tíma, og niðurstaðan af starfi hennar er svo þetta frv., sem flutt er hér af allshn.

Eins og stendur í grg., tók n. það til rækilegrar athugunar, hvort ekki mætti breyta framfærslulögunum þannig, að gera landið að einu framfærsluhéraði, en með framfærslul. frá 1935 virðist þetta hafa verið ætlunin. Með stofnun jöfnunarsjóðs, samkv. l. frá 1935, má einnig sjá vott þessa nýmælis. Þessi sjóður var stofnaður til að jafna framfærslukostnað milli héraða eftir reglum, sem settar voru um það í þá gildandi framfærslulögum.

Nefndin, sem mál þetta hefir flutt, komst að þeirri niðurstöðu, að í raun og veru væri með stofnun jöfnunarsjóðs, sem aukinn hefir verið síðustu ár, að nokkru leyti gengið í þá átt, að gera landið að einu framfærsluhéraði. Mætti segja um skipulag þeirra mála, að það yrði einskonar ríkisstj., sem réði öllum framfærslumálum, og einn sjóður, sem borgaði út framfærslustyrkinn. N. sá ekki ástæðu til að gera neinar sérstakar breytingar, hinsvegar hefir hún athugað, hvort ekki væri rétt að taka upp af nýju sveitfestitímann, sem afnuminn var með framfærslulögunum frá 1935. Meiri hl. n. var á móti því. Þær raddir komu fram í n., að ekki væri óeðlilegt að ákveða einhvern sérstakan sveitfestitíma. Í stað þess byggði n. í höfuðatriðum á grundvelli þeim, sem lagður var með framfærslul. 1935, en gerði á þeim verulegar breyt., sem miða í þá átt, að reyna að synda fyrir það, að eitt framfærsluhérað geti velt af sér framfærsluþunganum yfir á annað. Það hefir þótt koma í ljós á síðari árum. Í annan stað virtist n. rétt að setja ríkari valdboð í hendur sveitarstjórna, vegna þessa að framfærsluþunginn í sumum sveitar- og bæjarfélögum var orðinn svo mikill, að nauðsyn þótti, að sveitarstjórnirnar hefðu frjálsari hendur til skynsamlegra framkvæmda, sem orðið gæti til þess að draga úr framfærsluþunganum. Í þriðja lagi er í þessu frv. lagt til, að ríkissjóður beri ábyrgð á og greiði meira en áður eftir framfærslulögunum.

Segja má 3 höfuðatriði í þessu frv. Í fyrsta lagi, að ekki sé hægt að velta af sér þyngslunum yfir á önnur sveitarfélög, þannig að menn, sem flytjast búferlum milli héraða og eiga sveitaframfæri í sínu byggðarlagi, geti ekki unnið sér sveitfesti í nýju framfærsluhéraði fyrr en eftir ákveðinn tíma. Nokkur önnur ákvæði eru líka gerð, sem miða að sama marki í frv., t. d. er ákvæði um rannsókn á þeim ástæðum, sem liggja til flutnings manna milli héraða, et þeir, sem flutt hafa, koma á framfæri í hinu nýja byggðarlagi. Þetta miður að því að koma í veg fyrir, að gerðar séu ráðstafanir í því héraði, sem maðurinn flutti frá, í því skyni að senda hann í annað byggðarlag, ef ótta við, að bann kynni að þurfa á framfærslustyrk að halda. Um aukið vald sveitarstjórna eru nokkur ákvæði í þessu frv. Meðal annars um það, sem kann að vísu að vera vafamál, hvernig skilja beri framfærslulögin frá 1935, ef mönnum væri vísað á vinnu, ættu þeir ekki rétt á sveitarstyrk. Það getur verið vafa bundið og óvíst um, hvort hægt sé að vísa mönnunum til vinnu utan síns framfærsluhéraðs. En n. fannst, eins og atvinnuháttum hagar til á Íslandi, það ekki eðlilegt, að það væri eingöngu vinna innan framfærsluhéraðsins, sem hægt væri að vísa mönnum á, heldur öll forsvaranleg vinna, sómasamlega borguð, hvar sem er á landinu. Eins og allir vita, stafar oft hinn mikli flutningur manna milli héraða af ýmsum atvinnuháttum. Fjöldi fólks streymir til Norðurlands yfir síldveiðitímann, til þess að stunda vinnu bæði á sjó og landi, og í verstöðvarnar sunnanlands leitar einnig fjöldi manna úr öðrum héruðum. Því þykir n. eðlilegt, að heimasveit synji þeim atvinnulausu mönnum og þurfalingum um sveitastyrk, sem ekki þiggja þá vinnu, sem í boði er. Það eru ýms önnur atriði, sem má segja, að auki vald sveitarstjórna yfir mönnum, sem gefizt hafa upp í lífsbaráttunni og treysta sér ekki til að sjá sér farborða sjálfir. Það kann að orka tvímælis, hvað langt eigi að ganga í þeim efnum. Virðist mér ekki ósanngjarnt, að þegar menn gefast upp, af hvaða ástæðu sem er, sérstaklega menn, sem eru fullvinnandi, að þá hafi hlutaðeigandi sveitarstjórnir, sem þyngslin hafa af þeim, vald til þess að sjá þessum mönnum farborða með vinnu, annaðhvort innan sinnar sveitar eða annarstaðar. Reynslan hjá öllum sveitarfélögum hér á landi sýnir, að fátækraframfærið er okkur dýrast. Það vill líka oft verða svo, að þeir, sem hætta að sjá fyrir sér sjálfir, missa oft talsvert af sínum fyrri manndómi. Þeir gefast alveg upp, leggja árar í bát og láta svo skeika að sköpuðu. Nauðsynlegt er að gera allar hugsanlegar ráðstafanir, til þess að benda slíkum mönnum á einhverja útvegi til að geta bjargað sér sjálfir, enda er það þeim sjálfum fyrir beztu. Ég tel það í raun og veru rétt hugsað, hvort sem breytingar á þessum lögum, eins og þær liggja fyrir, nái þeim tilgangi, að sveitarstjórnir séu hvattar til þess á allan hátt að reyna að sjá um, að fullvinnandi menn þurfi ekki að vera á opinberu framfæri, heldur eigi annars úrkosta og fái tækifæri til að bjarga sér sjálfir.

Loks er þriðja atriðið, sem ég gat um, að væri höfuðatriðið í þessu frv. En það er, að ríkið ber ríkari ábyrgð á greiðslum, sem ein sveitin endurgreiðir til annarar. Það þótti við brenna áður en nýju l. komu, að ef eitt sveitarfélag feldi til skuldar hjá hinu, þá reiknaði sveitarfélagið, sem skuldina átti, hana einskis virði. Eins og ég sagði áður, er nokkru ríkari ábyrgð lögð á hendur ríkissjóði í þessum efnum.

Ég ætla hér ekki að fara út í einstök atriði þessa frv., aðeins benda á þessi 3 höfuðatriði og þann tilgang, sem hugsað er að ná með frv. Hér er um að ræða mikið alvörumál og þarf að þræða milli skers og báru, hvort sem það tekst fyllilega með frv. Má vel vera, að sum atriði frv. orki einhvers tvímælis, og er rétt, að hv. d. athugaði það rækilega og kæmi með till., sem miðað gætu til bóta, og fyrir mitt leyti, er ég fús til þess að ræða skynsamlegar brtt., sem fram kynnu að koma.