22.11.1939
Efri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

118. mál, framfærslulög

*Brynjólfur Bjarnason:

Staðhæfing hæstv. félmrh., að jöfnunarsjóðurinn gerði í raun og veru landið allt að einu framfærsluhéraði á ekki við rök að styðjast, því að þrátt fyrir sjóðinn heldur áfram hinum gamla hnotbíting milli sveitarfélaganna út af fátækraframfærinu. Ég held því fast fram, að ákjósanlegasta lausn þessa máls sé að gera landið allt að einu framfærsluhéraði með því skipulagi, að þurfamannakostnaður sveitar- og bæjarfélaga verði greiddur úr einum allsherjarsjóði, eins og ég þegar hefi stungið tvisvar sinnum upp á hér í þessari háttv. deild og eins og Jón heitinn Baldvinsson hafði gert á undan mér hér á Alþingi.

Ekki get ég heldur fallizt á, að ákvæði 21. gr. laganna gefi styrkþegum mikla tryggingu gegn gerrræði og misrétti við framkvæmd þeirra. Þvert á móti er stjórninni gefið gífurlegt vald yfir styrkþegum, lífi þeirra og örlögum. Auðvitað er þetta líka matsatriði, en reynslan hefir sýnt, að styrkþegar hafa verið beittir fantaskap og ofríki.